Jonni

SIX DAYS EUROTRIP 2012 - ALLES KLAR !

Áfram alveg geggjað að sjá allar heimsóknirnar og hvað "comment-in" flæða inn ;) ! Ég ætla að reyna að koma inn "update-i" daglega núna á meðan ég er í svona góðri aðstöðu hérna í pittinum, svo hér kemur næsta romsa...

Dagur 10 - 21.09.12

Það var ræs um 8 hjá mér á "Hótel Sprinter" hérna í pittinum sem er að reynast hrikalega vel. Ég var rétt búinn að klæða mig þegar íslenska hersingin streymdi á dyrnar hjá mér. Strákarnir fóru og sóttu hjólin sín í KTM geymsluna og á meðan skellti ég í mig morgunmatnum, síðan var eitthvað dundað í hjólunum aðeins áður en við skelltum okkur í gallana og héldum út á prufusvæðið aftur í smá æfingu. Við fiktuðum aðeins til í fjöðruninni hjá okkur og svo datt Hauki í hug að fikta aðeins til í "power" ventlinum á 300 tvígengis hjólunum hjá okkur Kára og Daða. Það var enginn smá munur á hjólunum hjá okkur og við keyrðum allir til baka upp í pitt hrikalega sáttir með hjólin stillt og klár fyrir keppnina. Ég stoppaði á þvottastöðinni rétt við pittinn og skolaði af Husaberg kvikindinu og þegar ég kom upp í pitt fór ég beint í að dúndra límmiðakittinu á tækið sem er auðvitað "custom made" af Jonni Productions fyrir "Six Days" ;) !

Á meðan týndust strákarnir einn af öðrum út í skoðun og komust allir hnökralaust þar í gegn og með hjólin inn í "parc fermé". Allir voru svo mættir upp í pitt til mín aftur og hjálpuðu mér við að græja nokkur loka atriði á hjólinu, loftsía, olía, kúpling til að kvikindið væri 100% klárt áður en ég renndi yfir í skoðun með það. Kári kom með mér yfir í skoðunina og það gekk allt smurt fyrir utan að ég var sendur að sækja stýrispúðann á hjólið og ég þurfti að nota keppnis númers límmiðana, ekki nóg að hafa rétt númer og bakgrunn forprentað í límmiðakittinu en það voru einhverjar smá sponsor auglýsingar í kringum númers límmiðana sem þeir vilja auðvitað láta sjást. Ég lagði svo hjólinu illa flottu og til preppuðu inn í "parc fermé" og það á að vera alveg 100% "race ready" fyrir mánudaginn þegar átökin byrja.

Þegar við komum upp í pitt voru þau hin búin að hrúga öllu draslinu inn í Sprinterinn svo við gætum brunað af stað og náð að kíkja á einhverjar sérleiðir eða svokölluð "special test". En í keppninni keyrum við sem leið liggur eftir ferjuleiðum á milli sérleiðanna sem eru það sem telur í keppninni, besti tími í heild úr sérleiðunum er þá sigurvegari keppninnar. Hinsvegar þarf maður samt að passa sig að vera á réttum tíma yfir daginn á ferjuleiðunum því annars fær maður refsimínútur sem bætast þá við tímann úr sérleiðunum. Svo þetta er "race" allan daginn en extra mikið "race" á sérleiðunum ;) ! Við kíktum á tvær sérleiðir af þremur sem eru á degi 1 og 2, fyrri sérleiðin sem við kíktum á var að hluta til í MX braut og svo lá hún í endalausa hlykki á túni við hliðiná sem gæti orðið hrikalega sleipt ef blotnar í því en öll leiðin lúkkaði samt mjög flott.

Seinni sérleiðin byrjaði svo á að þræða í gegnum svaka "trial" garð sem var fullur af steyptum holræsarörum, skriðdrekavörnum o.fl, leiðin lá reyndar yfirleitt bara á milli með nokkrum undantekningum, svo fór leiðin alveg svakalega langan hlykk út í skóg og þar var alveg svakalegur drullukafli sem gæti reynst erfiður, það var hjáleið framhjá honum sem var ekki mikið lengri svo það er spurning hvað maður gerir, ef maður lendir í einhverju stoppi í drullunni er maður strax búinn að tapa tíma miðað við að fara strax hjáleiðina. Það var svo rétt að skella á myrkur þegar við vorum að rölta til baka og þá vorum við svo heppin að næla okkur í far með gæjum í brautargæslunni sem voru á tveimur UTV kvikindum (Polaris RZR og Bombardier). Við tróðum okkur öll aftaná og utaná kvikindin og svo var brunað með okkur aftur að bílunum, algjörir snillingar !

Það voru svo allir orðnir sársvangir og endaði með því að við fórum öll heim á hótel þar sem þau öll gista og ákváðum að borða á veitingastaðnum þar, þar sem við þurftum reyndar að berjast við moskítóflugur af miklum móð. Á meðan við biðum eftir matnum duttum við í hrikalega missu á klósettinu á hótelinu en þar var smokkasjálfsali með "travel pussy", við Kári gátum ekki annað en kíkt á þetta og gátum varla hamið okkur af hlátri þegar við sáum kvikindið sem var plastpoki sem var fylltur með vatni, erum strax farnir í það að fá umboðið fyrir þetta heim haha ;) ! Maturinn var svo alveg hrikalega góður, rumpsteik og allur pakkinn tekinn með, ég borðaði algjörlega á mig gat og var þvílíkt stoltur þar sem ég náði í fyrsta skiptið í ferðinni að borða meira en Kári og Daði, stráksinn að verða stór !

Eftir matinn var spjallað og mikið hlegið yfir allskyns vitleysu, plönuðum aðeins morgundaginn og svo bjargaði ég hótel liðinu með minni gríðarlega flottu þýsku kunnáttu og sjarma þegar ég reddaði þeim aðgangi að interneti á hótelinu og þvotti á fötum en þau voru búin að vera alveg í mínus að það væri ekkert net á hótelinu og hvernig við ættum að þvo gallana og föt, stráksinn aftur með þetta hehe ;) ! Það var svo ákveðið að ég myndi bara fara á öðrum bílaleigubílnum þeirra til baka upp í pitt svo einhver þyrfti ekki að keyra fram og til baka og þau myndu bara troða sér í hinn bílinn sem er akkurat 7 manna til að komast niður í pitt. Ég rúntaði því fljótlega af stað niður í pitt sem tók um hálftíma, þegar ég kom þangað var alveg svakalegt "Race Party" í gangi við pittinn fyrir keppnisliðið. Eftir að ég var búinn að kíkja út í bíl og ganga aðeins frá rölti ég yfir í partýið og þar var hrikaleg stemning, DJ með allt í botni, dansgólf, barir og fullt af liði. Ég fékk mér einn Red Bull, kíkti aðeins á stemninguna og svo kom ég mér út í bíl aftur, þar datt ég bara í tölvuna og hnoðaði saman í frétt áður en ég henti mér upp í koju í svefninn !

Á morgun (í dag) byrjum við með fundarstandi fyrir liðið með KTM þar sem það verður farið yfir það hvernig þjónustan hjá þeim virkar yfir keppnina en við erum allir í liðinu með þjónustu í gegnum KTM fyrir keppnina. Svo er opnunarhátíð keppninnar og ef getum ætlum við að reyna að kíkja á fleiri sérleiðir. Allir eru í hrikalega góðu stuði, andinn í blússandi gír hjá liðinu og ekkert nema stemning og tilhlökkun hjá okkur fyrir keppninni ;) !

Jonni

SIX DAYS EUROTRIP 2012 - MÆTTIR Á SVÆÐIÐ

Loksins fann ég tíma til að dúndra inn næsta skammti ! Váá hvað það það er gaman að sjá fjöldann sem hefur kíkt hingað inn á síðustu frétt og algjör snilld að fá "comment" á fréttirnar, endilega haldið því áfram ;) ! En hér eru fréttir frá síðustu dögum í ferðinni...

Dagur 6 - 17.09.12

Ég rumskaði við að allur bíllinn gekk til og þvílík umferðarlæti fyrir utan en þá var morguntraffíkin í Berlín greinilega komin af stað og rútur farnar að streyma niður í miðbæinn með túrista. Ég dottaði nú eitthvað áfram áður en ég kom mér á lappir enda ekkert framundan nema hangs í Berlín þar til ég myndi sækja Kára og Daða út á flugvöll um kvöldið. Eftir morgunmatinn græjaði ég mig svo í túristaleik um Berlín á "longboard-inu" ! Það var alveg hrikalega gott veður, sól og steikjandi hiti ! Ég renndi mér um allan bæ, skoðaði helstu staðina, fékk mér að borða og svo endaði ég hjá jógúrt sjoppu sem ég mundi að var með net sem við Arna Benný fórum á í Evrópureisunni 2008.

Ég eyddi dágóðum tíma á netinu og skrifaði frétt inná síðuna og græjaði og gerði. Síðan renndi ég mér af stað út í bíl og ákvað að taka rölt í gegnum Tiergarten að bílnum. Klukkan var rúmlega 6 þegar ég kom að bílnum og strákarnir áttu ekki að lenda fyrr en rúmlega 9. Ég ákvað því að kippa fjallahjólinu út og hjóla einn hring um Tiergarten til að drepa tímann, fékk mér smá snarl, skipti um föt og lagði svo í hann. Ég gleymdi að svo alveg að reikna með því að mykrið hérna úti skellur á alveg á met tíma og þá erum við að tala um svartamyrkur, þannig að þegar ég var búinn að hjóla í smá stund var eiginlega ekki séns að hjóla inní garðinum þar sem engin ljós voru því þar sá ég varla handa minna skil. Ég hjólaði því bara utanmeð garðinum þar sem voru götuljós. Þegar ég kom aftur að bílnum var klukkan orðin hálf 9 svo ég henti hjólinu inn og brunaði af stað út á flugvöll. Strákarnir voru akkurat lentir þegar ég mætti á svæðið og eftir smá stund fann ég þá og við hentumst af stað að Sachsenring (keppnisstaðnum) en þangað voru um 250km. Við vorum allir orðnir frekar svangir og fórum að leita eftir einhverjum matsölustað, stoppuðum á öllum útskotum með matsölustöðum á en þar var annaðhvort búið að loka eða bara bensínstöðvafæði. Endaði með því að við sáum stóra "M-ið" framundan í GPS tækinu og það var samhljóða ákvörðun að bruna þangað. Þaðan komum við svo út saddir og sælir og þá voru ekki nema um 60km að keppnisstaðnum svo við ákváðum að keyra bara alla leið. Vorum komnir þangað rétt eftir miðnættið og þar var okkur hleypt inná eitthvað stæði til að geta gist yfir nóttina. Við komum okkur fyrir í Sprinternum, Kári uppí kojunni hjá mér og Daði breiddi úr sér á teppum á gólfinu þar sem þeir komu ekki með neina dýnu, en allt gekk þetta upp og við svifum inní draumaheima ;) !

Dagur 7 - 18.09.12

Við rumskuðum félagarnir einhverntíma um 9 við svaka kappaksturshljóð frá brautinni en þá voru einhverjir sportbílakappar mættir að taka á því. Ég kíkti út og sá þá að þetta voru einhverjir "drift" kóngar á BMW, Porsche, Benz, Corvette o.fl. Búið að bleyta beygjurnar í brautinni og allt að gerast. En fyrir þá sem ekki vita þá er Sachsenring mjög stór og flott kappakstursbraut þar sem keppt er á bílum og mótorhjólum, hér hafa verið haldnar Moto GP keppnir og ýmislegt fleira. Núna er svæðið miðstöðin fyrir Six Days keppnina og pitturinn og allt slíkt er við og á kappakstursbrautinni. Við strákarnir fengum okkur svo morgunmat og fórum svo í skoðunarleiðangur um svæðið, í pittinum voru lið og fyrirtæki að koma sér fyrir og svo var ennþá hörku "aksjón" í gangi á kappakstursbrautinni.

Það var alveg hrikalega flott veður, glampandi sól og steikjandi hiti. Við fórum svo í bílinn og gerðum lista yfir það sem okkur vantaði og ákváðum að bruna að verslunarmiðstöð rétt hjá og reyna að versla það sem okkur vantaði. Leiðangurinn gekk vel en einhvernveginn fauk tíminn ótrúlega hratt frá okkur og klukkan var að verða 5 þegar við komum aftur upp á Sachsenring.

Þá fórum við á skrifstofuna og fengum aðgang að pitt svæði þar sem ég átti að fá að koma bílnum fyrir. Þegar við komum svo á það pitt svæði áttum við að þurfa að leggja við hliðina á risa rafstöð sem hljómaði eins og meðal togari, ekki spennandi að sofa við það, fengum að færa okkur aðeins frá en samt ótrúleg læti frá stöðinni og fáránlegt að hafa þetta inní miðjum pitti þar sem gert var ráð fyrir að fólk ætti að gista. Við komum okkur samt fyrir og fórum að vinna í hjólinu mínu. Ég eldaði svo hrikalegt pasta ofaní okkur strákana og það var svaka kósý hjá okkur þarna í bílnum. Við vorum svo bara rétt búnir að ganga frá fyrir utan bílinn og komnir inn þegar það skall á þessi svakalega demba með roki, þrumum, eldingum og öllum pakkanum. Kári og Daði skelltu sér svo í sturtu þarna á svæðinu en þar var flott klósett og sturtu aðstaða. Ég græjaði aðeins til í bílnum og fór svo í sturtuferð þegar þeir komu til baka. Svo var svefnaðstaðan græjuð, nýja fína dýnan hans Daða small á gólfið og við sofnuðum allir nýsturtaðir og fínir yfir Friends á tölvuskjánum meðfram drununum í rafstöðinni fyrir utan...!

Dagur 8 - 19.09.12

Það átti að taka daginn snemma þennan morguninn en vekjaraklukkustjórinn (Kári) ákvað að slökkva bara á klukkunni strax við fyrstu hringingu svo við rumskuðum ekki fyrr en uppúr 9 ;) ! Það var svosum ekkert slæmt en það var nóg af verkefnum framundan. Það var mun kaldara þennan morguninn og smá gola úti. Eftir morgunmat í bílnum pökkuðum við saman dótinu og fórum upp á skrifstofu til að fá aðgang að stæðinu sem Team Iceland átti að hafa á hinu pitt svæðinu þar sem liðin eru með viðgerðaraðstöðu. Það hafði gleymst að gera ráð fyrir plássi fyrir Ísland en eftir smá stund var það leyst og við fengum ágætis horn á fínum stað í pittinum. Við ákváðum bara að það væri miklu betra að ég myndi koma mér bara fyrir þarna í pittinum með bílinn, engin rafstöð og nær öllu. Daði fór svo og sá að það voru klósett og sturtur þarna líka rétt hjá í pittinum, svo þetta gat bara ekki verið betra. Við merktum okkur pittinn svo enginn myndi stela stæðinu og brunuðum svo í eldsnöggan verslunarleiðangur að sækja smotterí sem vantaði.

Þegar við komum til baka komum við Sprinternum fyrir í pittinum, smelltum fortjaldinu upp og græjuðum og gerðum. Ég fór svo að vinna í mínu hjóli áfram og Kári og Daði fóru og sóttu leiguhjólin sín, Daði á KTM og Kári á Husaberg. Svo var bara græjað áfram í hjólunum, sóttum dekk og "mousse", hluti sem okkur vantaði fyrir hjólin í KTM trukkinn og svo var unnið fram á kvöld. Gulli og Gústi liðsfélagar ásamt Gunni úr Arctic Trucks mættu svo á svæðið og kíktu aðeins á okkur áður en þeir skelltu sér á hótel þarna rétt hjá. Við strákarnir grilluðum okkur svo pylsur í kvöldmatinn og eftir meiri vinnu í hjólunum gengum við frá og komum okkur fyrir í bílnum. Ég skellti mér í fréttaskrif uppí kojunni og Kári og Daði steinsofnuðu á meðan ;) !

Dagur 09 - 20.09.12

Við náðum loksins að ræsa snemma þennan morguninn strákarnir og við vorum passlega að skríða framúr um 8 leytið þegar öll íslenska hersingin mætti á svæðið en nú var allt pakkið komið saman þ.e. Tedda (liðsstjóri) og Haukur (liðsfélagi) líka ! Það var byrjað á því að rölta með allt liðið á keppnis skrifstofuna og fá ýmis atriði á hreint. Svo sóttu strákarnir leiguhjólin sín sem áttu eftir að sækja og allir fóru að vinna í hjólunum sínum inní pitt. Tedda fór á fullt að finna svör við ótal spurningum og fá öll atriði á hreint í kringum keppnina. Við skruppum svo í hádegismat í tveimur hollum svo að pittsvæðið okkar stæði ekki ómannað en núna var búið að setja upp veitingastað/mötuneyti á einu pitt svæðinu sem var alveg að gera sig. Það var svo haldið áfram að græja hjól og gera þar til klukkan nálgaðist 3 en þá græjuðum við okkur allir í galla og byrjuðum á því að rúnta yfir á skrifstofuna til að klára pappírsmál fyrir alla liðsmennina en svo fórum við allir saman á hjólunum út í "test" braut sem var í um 8km í burtu, Gunni og Tedda fylgdi okkur á bílaleigubíl til að vera okkur innan handar og fylgjast með.

Þetta var MX braut sem var orðin vel grafin og fín til að finna hvernig hjólin voru að virka. Við tókum allir góða keyrslu þarna og ég var að finna mig alveg þrusu vel á Husaberg-num, það voru góðir pallar í brautinni sem ég tók alla og var mjög sáttur með hjólið. Þegar allir voru búnir að prufa nóg rúntuðum við til baka upp í pitt. Ég skellti mér niður á þvottastöð og skolaði af hjólinu, hinir fóru með hjólin í geymslu hjá KTM, Kári þurfti reyndar fyrst að fara með Husaberginn sinn í skoðun í KTM "service-inn" en fjöðrunin og krafturinn í því var eitthvað skrítinn. Við hjálpuðumst svo öll að við að taka aðeins til á pitt svæðinu okkar og raða almennilega afturí bílinn hjá mér og skipuleggja þannig að allt væri aðgengilegt og fínt, strákarnir geyma aukadekkin sín klár með "mousse" í afturí bílnum svo það sé klárt til að grípa í þegar kemur að því að skipta í keppninni. Þegar allt var orðið fínt og flott skelltum við okkur öll saman í kvöldmat og fundum þetta fína veitingahús stutt frá þar sem við fengum steik og með því. Mér var svo skutlað upp í pitt og þau hin héldu sína leið á hótelið þar sem þau gista núna öll fram yfir keppni.

Ég kom mér fyrir í bílnum, byrjaði á að taka aðeins til og skipuleggja allt dótið þar sem það var ekki búinn að vera mikill tími í það og svo slappaði ég bara af fram eftir kvöldi og græjaði frétt á síðuna.

Núna í þessum töluðu er ég að skríða uppí koju og detta í svefninn fyrir átök morgundagsins ;) ! Planið á morgun er að byrja á að renna aftur út í "test" brautina og prufa aðeins meira, Kári þarf að sjá hvort hjólið sitt er eitthvað betra og svo bara allir að finna sig betur á hjólunum enda flestir ekki vanir KTM eða Husaberg hjólum. Svo er planið að fullgræja hjólin fyrir skoðun og dúndra þeim í gegn og inn í "Parc Fermé" sem er geymslustaðurinn fyrir hjólin yfir keppnina. Þá fáum við hjólin ekki aftur fyrr en á mánudagsmorgun þegar keppnin byrjar. En í "Six Days" eru hjólin semsagt alltaf geymd inní þessu svokallaða "Parc Fermé" geymslusvæði á milli keppnisdaga, þ.e. í byrjun dags sækjum við hjólin á réttum tíma þangað, fáum 10 mínútur til viðgerða í pittinum, svo er lagt af stað inn í keppnisdaginn, í lok dags endar maður svo niður í pitt aftur og hefur 15 mínútur til viðgerða áður en maður þarf að skila hjólinu aftur inn á geymslusvæðið. Þannig það er eins gott að hjólin séu öll klár áður en við förum á morgun og skilum þeim inn ;) ! Ef allt gengur upp og við höfum tíma ætlum við að reyna að nýta eftirmiðdaginn í að kíkja svo á eitthvað af leiðunum í keppninni, en í dag var okkur m.a. sagt af svakalegri brekku sem við þurfum að keyra á degi 3 og 4, á að vera um 1 km á lengd og ekkert nema grjót og ógeð upp í mót... og það sem meira er að samkvæmt spánni á akkurat að rigna þessa daga hehe ! Bara stuð !

Þar til næst,
Jonni

SIX DAYS EUROTRIP 2012 - BARA BYRJUNIN...

Fyrir þá sem ekki vita þá er ég hluti af íslenska landsliðinu í enduro sem keppir í ISDE 2012 eða "Six Days" eins og keppnin er betur þekkt sem. Ég ákvað að gera þetta að alvöru ferðalagi og fór á Sprinternum okkar með Norrænu á miðvikudaginn í síðustu viku, þann 12. sept yfir hafið á meginlandið þar sem ég verð í rétt um 3 vikur áður en ég held aftur um borð í skipið og sigli heim. Keppnin byrjar þann 24. sept svo ég hef góðan tíma til að undirbúa og græja allt fyrir það. Eftir keppnina er svo planið að bruna yfir á MXON sem fer fram í Belgíu, síðan tekur við vika af einhverju skemmtilegu hjá mér áður en ég fer í skipið aftur.

Netið um borð í Norrænu var alveg glatað og ég er eiginlega að komast í fyrsta skiptið á almennilegt net núna svo hér kemur hrúgan… ;)

Dagur 1 - 12.09.12

Síðustu dagar voru stífir við að undirbúa bílinn og allt annað og auðvitað allt á síðustu stundu hehe ! Svo var auðvitað þessi stormur sem gekk yfir norðurlandið með tilheyrandi ófærð og veseni ekki að hjálpa til. Það var unnið fram undir morgun uppí Kröflu að smíða koju og græja í Sprinternum og svo koma öllu fyrir. En ég lagði af stað austur frá Mývatnssveitinni rétt eftir hádegið og brunaði austur í ógeðis færð á öræfunum. Stoppaði eldsnöggt á Egilsstöðum að versla smá íslenskt góðgæti til að hafa með og brunaði svo áfram yfir heiðina niður í Seyðisfjörðinn.

Ég tjékkaði mig inn og fljótlega var hleypt um borð, lagði Sprinternum og kom mér svo fyrir uppí káetu númer 7209. Algjör lúxus að vera einn í 4ra manna klefa en planið var auðvitað að hafa Örnu Benný með en svo komst hún ekki frá nýju vinnunni sinni skiljanlega. Ég fylgdist með þegar við sigldum út fjörðinn, greip mér smá bita og svo tók langþráð hvíld við niðrí káetu.

Dagur 2 - 13.09.12

Svaf út eins lengi og ég gat og dundaði mér svo eitthvað í tölvunni þar til við komum til Þórshafnar í Færeyjum rétt eftir hádegið. Það var grenjandi rigning úti en ég klæddi mig upp og tók rölt um Þórshöfn, fór í "moll-ið" og alles ! Það var svosum ekki mikið að gera í landi svo ég rölti aftur um borð einhverntíma um 5 og lagðist í gláp á sjónvarpsþætti í tölvunni og tók því rólega. Stökk svo upp á dekk um kvöldið þegar við sigldum frá Færeyjum og síðan settist ég fram í kaffiteríu til að komast á netið aðeins. Netið um borð var nú ekki uppá marga fiska en ég rétt náði að spjalla aðeins við Örnu og láta vita af mér. Svo tók rúmið aftur við !

Dagur 3 - 14.09.12

Þessi dagur var nú ekki mjög spennandi, bara sigling allan daginn og því ekkert annað að gera en að dunda í tölvunni og glápa á myndir til skiptis. Reyndi eitthvað að kíkja á netið en gafst upp þar sem það var svo hægt. Í eftirmiðdaginn skellti ég mér svo niður í "gym-ið" og tók 45 mínútna róður. Djöfull var ótrúlega skrítið að róa svona á siglingu, fyrst leið mér eins og ég væri alltaf að velta af vélinni og svo kom bara ógleði, en eftir smá vandist þetta allt og ég kláraði hörku púl ! Skellti mér svo í gufubaðið áður en ég fór uppí káetu aftur. Ég kíkti svo uppá dekk og fékk mér snarl og settist með tölvuna út á dekk þar sem það var svo gott veður. Það var hrikalega kósý að sitja í hlýrri hafgolunni í myrkrinu og glápa á tölvuna fram eftir þar til ég kom mér í bólið.

Dagur 4 - 15.09.12

Það var ræs um 8 til að rýma káetuna áður en við kæmum að landi í Hirtshals í Danaveldi um 9. Ég pakkaði öllu og skrolti einhvernveginn fram á gang með allt draslið. Fljótlega var svo hleypt niður á bíladekk og ég gat komið draslinu í bílinn. Svo tók við endalaus bið áður en ég gat komist frá borði á bílnum en það tókst að lokum og ég kíkti einn hring í Hirtshals til að komast aðeins á netið og athuga með eina MX búð sem var lokuð. Það var svo komið fram yfir hádegið þegar stefnan var tekin til Sachsenring þar sem "six days" fer fram en þangað voru rúmir 1000 km ;) !

Það gekk vel að bruna suður Jótlandið og þegar klukkan var að nálgast 4 fann ég Bauhaus rétt við hraðbrautina og kíkti þangað inn í von um að kaupa smá smíðaefni til að græja bílinn betur. Ég gleymdi mér í Bauhaus í góðan klukkutíma og kom þaðan út með allar græjur til að gera bílinn þvílíkt flottann að innan. Við hliðina á Bauhaus var svo súpermarkaður svo ég ég nýtti tækifærið og fór í annan verslunarleiðangur að byrgja mig upp af mat og öðrum nauðsynjavörum. Klukkan var svo að verða 6 þegar ég lagði aftur af stað en ég ákvað að stoppa fljótlega á útskoti við hraðbrautina og kom mér fyrir og hóf innréttingasmíði í bílnum. Græjaði þvílíkt fína "eldhús" innréttingu og festi hana í bílinn áður en ég smellti gashellunni í gang og eldaði kvöldmatinn. Ég græjaði svo aðeins meira til í bílnum en varð að bíða með frekari smíðar þar sem skrúfvélin var orðin rafmagnslaus. Kom mér síðan fyrir í kojunni í fyrsta skiptið sem var að virka svona hrikalega vel og ég sofnaði eins og klettur !

Dagur 5 - 16.09.12

Vaknaði um 10 og fékk mér morgunmat og gekk frá í bílnum áður en ég hélt af stað aftur út á hraðbrautina í suður inn til Þýskalands. Fljótlega eftir að ég kom yfir landamærin tók ég eldsneytisstopp og fékk mér snarl í bílnum en þá var komin þessi svaka blíða. Ferðin hélt svo áfram á hraðbrautinni niður til Hamburg en rétt áður en ég kom þangað heyrði ég í Kára (Kári Sport #46 - Íslandsmeistari í Enduro - Liðsfélagi) og bauð honum og Daða (Daði Skaði #298 - Liðsfélagi) að ég myndi bara sækja þá til Berlín annað kvöld þar sem ég vissi að þeir voru eitthvað að vesenast með far frá Berlín niður að keppnisstaðnum, þetta væri smá útúrdúr fyrir mig en ég hafði nógan tíma. Hann var hrikalega ánægður með þetta og ég tók því væga vinstri beygju frá Hamburg í átt að Berlín. Þangað voru nú ekki nema um 300 km og klukkan var að nálgast 3 svo ég hafði allan tímann í heiminum.

Ég stoppaði svo á "rasthof-i" um 6 leytið og þá voru ekki nema um 50 km eftir til Berlín. Ég gerði vel við mig og skellti mér á stóra "M-ið" og fór svo í áframhaldandi smíðar í bílnum. Nú var það hillusmíði og borð á milli sætanna í bílnum. Smíðin gekk svona svakalega að ég græjaði allt til og tók svo og raðaði öllu dóti og græjaði til í bílnum. Klukkan var þá að nálgast miðnættið og ég var búinn að sjá að það væri net þarna, en auðvitað virkaði það ekki ! Ég ákvað því bara að halda áfram til Berlín aðeins og reyna að finna mér stæði með neti. Reyndi við nokkur útskot en engin net að finna og áður en ég vissi af var ég kominn inn í miðbæ Berlínar. Klukkan var þá að nálgast 1 svo ég lagði bara bílnum á stæði við Tiergarten, sama stað og við Arna höfðum lagt Napoleon í Evrópureisunni okkar 2008. Ég kom mér svo bara fyrir uppí koju og sofnaði yfir Friends á tölvuskjánum ;) !

Núna...

Núna er ég semsagt í Berlín og er búinn að túristast hérna um borgina á "longboard-inu" í bongó blíðu. Sit núna í einhverri jógúrt sjoppu sem ég mundi að var með net sem við fórum á í Evrópureisunni 2008. Strákarnir lenda svo hérna í kvöld og planið er að pikka þá upp og rúlla allavega langleiðina niður að keppnissvæðinu ef ekki alla leið, fer eftir því hvernig gengur. Það á svo að vera net á keppnissvæðinu svo vonandi get ég sent inn "update" þaðan á morgun !

L8er ;)

AFSAKIÐ HLÉ...

Jæja, nú verð ég að biðja ykkur afsökunar á þessari leti í mér hérna á síðunni... Það er búið að vera alveg sturlað að gera hjá mér, flytja aftur norður eftir veturinn, buna út grafík settum á hjólin fyrir tímabilið, koma 3 stórum vefsíðum í loftið, keppnisstandið og svo ég tali nú ekki um það að lifa lífinu almennt ;) !

Jonni.is - Afsakið Hlé...

En nú dugir ekkert annað en að rífa þetta aftur í gang, setja í "rally" gírinn og halda áfram að færa ykkur gestunum mínum allar helstu fréttirnar í heimi jaðaríþrótta hérna heima og utan úr heimi, vona að þið sýnið mér skilning í þessu og haldið áfram að heimsækja síðuna !

Kv. Jonni

TIL SÖLU - KXF250 OG KX125

Kawasaki KXF 250 2011:

Keyrði þetta hjól í sumar í MX og Enduro, er keyrt um 100 tíma. Var farið í allsherjar upptekt í lok ágúst, stimpilskipti og allt skoðað. Hjólið er endurotjúnnað, ljós frá KTM framan og aftan, Trailtech Vapor mælaborð og hraðamælir og svo 18" SM afturgjörð (hægt að fá 19" gjörðina frekar ef þannig vill til). Aðrir aukahlutir eru One/N1 límmiðakit, blátt Renthal stýri, Zeta óbrjótanleg handföng, Acerbis handahlífar, ál tanklok, FMF púst, O-hringja keðja, Ironman tannhjól, TM Designworks keðjusleði, Lightspeed Carbon Fiber bremsudiskahlífar framan og aftan og svo ál hlífðarpanna með foam á milli vélar og pönnu til að hrinda drullu frá. Plöst fyrir MX notkun fylgja og eitthvað af aukadóti getur fylgt með.

Þetta er alveg snilldar hjól í toppstandi, búið að reynast mér svakalega vel og alltaf skilað sínu !

Verðmiði: 990.000 kr.

Kawasaki KXF 250 2011 - Jonni - Til sölu

Kawasaki KX 125 2008:

Hjól sem Tedda kona Hauks Þorsteins átti á undan mér, hún fékk það nýtt. Ég hef lítið notað hjólið, Arna Benný hefur hjólað aðeins á því og svo hef ég notað það í Endurocross-ið. Hjól sem er alveg 100%, gerði stimpilskipti í byrjun árs, hefur lítið verið notað í ár, einn og einn endurotúr og smölun. Aukahlutir eru One límmiðakit, extra sterkt sætisáklæði, Zeta óbrjótanlegt bremsuhandfang, loftblæðarar á framdempurum, FMF kraftpúst, Ironman tannhjól, TM Designworks keðjusleði og Pro Moto Kick It standari. Á handahlífar og eitthvað af aukaplöstum sem geta fylgt með.

Þetta "konuhjól" er alveg í toppstandi, ótrúlega skemmtileg græja sem leynir á sér !

Verðmiði: 490.000 kr.

Kawasaki KX 125 2008 - Jonni - Til sölu

Áhugasamir hafið samband við mig í síma: 7718024 eða sendið póst á Þetta netfang er varið gegn ruslpósts þjörkum. Þú verður að hafa JavaScript virkt til að skoða það. !