SIX DAYS EUROTRIP 2012 - MÆTTIR Á SVÆÐIÐ

Loksins fann ég tíma til að dúndra inn næsta skammti ! Váá hvað það það er gaman að sjá fjöldann sem hefur kíkt hingað inn á síðustu frétt og algjör snilld að fá "comment" á fréttirnar, endilega haldið því áfram ;) ! En hér eru fréttir frá síðustu dögum í ferðinni...

Dagur 6 - 17.09.12

Ég rumskaði við að allur bíllinn gekk til og þvílík umferðarlæti fyrir utan en þá var morguntraffíkin í Berlín greinilega komin af stað og rútur farnar að streyma niður í miðbæinn með túrista. Ég dottaði nú eitthvað áfram áður en ég kom mér á lappir enda ekkert framundan nema hangs í Berlín þar til ég myndi sækja Kára og Daða út á flugvöll um kvöldið. Eftir morgunmatinn græjaði ég mig svo í túristaleik um Berlín á "longboard-inu" ! Það var alveg hrikalega gott veður, sól og steikjandi hiti ! Ég renndi mér um allan bæ, skoðaði helstu staðina, fékk mér að borða og svo endaði ég hjá jógúrt sjoppu sem ég mundi að var með net sem við Arna Benný fórum á í Evrópureisunni 2008.

Ég eyddi dágóðum tíma á netinu og skrifaði frétt inná síðuna og græjaði og gerði. Síðan renndi ég mér af stað út í bíl og ákvað að taka rölt í gegnum Tiergarten að bílnum. Klukkan var rúmlega 6 þegar ég kom að bílnum og strákarnir áttu ekki að lenda fyrr en rúmlega 9. Ég ákvað því að kippa fjallahjólinu út og hjóla einn hring um Tiergarten til að drepa tímann, fékk mér smá snarl, skipti um föt og lagði svo í hann. Ég gleymdi að svo alveg að reikna með því að mykrið hérna úti skellur á alveg á met tíma og þá erum við að tala um svartamyrkur, þannig að þegar ég var búinn að hjóla í smá stund var eiginlega ekki séns að hjóla inní garðinum þar sem engin ljós voru því þar sá ég varla handa minna skil. Ég hjólaði því bara utanmeð garðinum þar sem voru götuljós. Þegar ég kom aftur að bílnum var klukkan orðin hálf 9 svo ég henti hjólinu inn og brunaði af stað út á flugvöll. Strákarnir voru akkurat lentir þegar ég mætti á svæðið og eftir smá stund fann ég þá og við hentumst af stað að Sachsenring (keppnisstaðnum) en þangað voru um 250km. Við vorum allir orðnir frekar svangir og fórum að leita eftir einhverjum matsölustað, stoppuðum á öllum útskotum með matsölustöðum á en þar var annaðhvort búið að loka eða bara bensínstöðvafæði. Endaði með því að við sáum stóra "M-ið" framundan í GPS tækinu og það var samhljóða ákvörðun að bruna þangað. Þaðan komum við svo út saddir og sælir og þá voru ekki nema um 60km að keppnisstaðnum svo við ákváðum að keyra bara alla leið. Vorum komnir þangað rétt eftir miðnættið og þar var okkur hleypt inná eitthvað stæði til að geta gist yfir nóttina. Við komum okkur fyrir í Sprinternum, Kári uppí kojunni hjá mér og Daði breiddi úr sér á teppum á gólfinu þar sem þeir komu ekki með neina dýnu, en allt gekk þetta upp og við svifum inní draumaheima ;) !

Dagur 7 - 18.09.12

Við rumskuðum félagarnir einhverntíma um 9 við svaka kappaksturshljóð frá brautinni en þá voru einhverjir sportbílakappar mættir að taka á því. Ég kíkti út og sá þá að þetta voru einhverjir "drift" kóngar á BMW, Porsche, Benz, Corvette o.fl. Búið að bleyta beygjurnar í brautinni og allt að gerast. En fyrir þá sem ekki vita þá er Sachsenring mjög stór og flott kappakstursbraut þar sem keppt er á bílum og mótorhjólum, hér hafa verið haldnar Moto GP keppnir og ýmislegt fleira. Núna er svæðið miðstöðin fyrir Six Days keppnina og pitturinn og allt slíkt er við og á kappakstursbrautinni. Við strákarnir fengum okkur svo morgunmat og fórum svo í skoðunarleiðangur um svæðið, í pittinum voru lið og fyrirtæki að koma sér fyrir og svo var ennþá hörku "aksjón" í gangi á kappakstursbrautinni.

Það var alveg hrikalega flott veður, glampandi sól og steikjandi hiti. Við fórum svo í bílinn og gerðum lista yfir það sem okkur vantaði og ákváðum að bruna að verslunarmiðstöð rétt hjá og reyna að versla það sem okkur vantaði. Leiðangurinn gekk vel en einhvernveginn fauk tíminn ótrúlega hratt frá okkur og klukkan var að verða 5 þegar við komum aftur upp á Sachsenring.

Þá fórum við á skrifstofuna og fengum aðgang að pitt svæði þar sem ég átti að fá að koma bílnum fyrir. Þegar við komum svo á það pitt svæði áttum við að þurfa að leggja við hliðina á risa rafstöð sem hljómaði eins og meðal togari, ekki spennandi að sofa við það, fengum að færa okkur aðeins frá en samt ótrúleg læti frá stöðinni og fáránlegt að hafa þetta inní miðjum pitti þar sem gert var ráð fyrir að fólk ætti að gista. Við komum okkur samt fyrir og fórum að vinna í hjólinu mínu. Ég eldaði svo hrikalegt pasta ofaní okkur strákana og það var svaka kósý hjá okkur þarna í bílnum. Við vorum svo bara rétt búnir að ganga frá fyrir utan bílinn og komnir inn þegar það skall á þessi svakalega demba með roki, þrumum, eldingum og öllum pakkanum. Kári og Daði skelltu sér svo í sturtu þarna á svæðinu en þar var flott klósett og sturtu aðstaða. Ég græjaði aðeins til í bílnum og fór svo í sturtuferð þegar þeir komu til baka. Svo var svefnaðstaðan græjuð, nýja fína dýnan hans Daða small á gólfið og við sofnuðum allir nýsturtaðir og fínir yfir Friends á tölvuskjánum meðfram drununum í rafstöðinni fyrir utan...!

Dagur 8 - 19.09.12

Það átti að taka daginn snemma þennan morguninn en vekjaraklukkustjórinn (Kári) ákvað að slökkva bara á klukkunni strax við fyrstu hringingu svo við rumskuðum ekki fyrr en uppúr 9 ;) ! Það var svosum ekkert slæmt en það var nóg af verkefnum framundan. Það var mun kaldara þennan morguninn og smá gola úti. Eftir morgunmat í bílnum pökkuðum við saman dótinu og fórum upp á skrifstofu til að fá aðgang að stæðinu sem Team Iceland átti að hafa á hinu pitt svæðinu þar sem liðin eru með viðgerðaraðstöðu. Það hafði gleymst að gera ráð fyrir plássi fyrir Ísland en eftir smá stund var það leyst og við fengum ágætis horn á fínum stað í pittinum. Við ákváðum bara að það væri miklu betra að ég myndi koma mér bara fyrir þarna í pittinum með bílinn, engin rafstöð og nær öllu. Daði fór svo og sá að það voru klósett og sturtur þarna líka rétt hjá í pittinum, svo þetta gat bara ekki verið betra. Við merktum okkur pittinn svo enginn myndi stela stæðinu og brunuðum svo í eldsnöggan verslunarleiðangur að sækja smotterí sem vantaði.

Þegar við komum til baka komum við Sprinternum fyrir í pittinum, smelltum fortjaldinu upp og græjuðum og gerðum. Ég fór svo að vinna í mínu hjóli áfram og Kári og Daði fóru og sóttu leiguhjólin sín, Daði á KTM og Kári á Husaberg. Svo var bara græjað áfram í hjólunum, sóttum dekk og "mousse", hluti sem okkur vantaði fyrir hjólin í KTM trukkinn og svo var unnið fram á kvöld. Gulli og Gústi liðsfélagar ásamt Gunni úr Arctic Trucks mættu svo á svæðið og kíktu aðeins á okkur áður en þeir skelltu sér á hótel þarna rétt hjá. Við strákarnir grilluðum okkur svo pylsur í kvöldmatinn og eftir meiri vinnu í hjólunum gengum við frá og komum okkur fyrir í bílnum. Ég skellti mér í fréttaskrif uppí kojunni og Kári og Daði steinsofnuðu á meðan ;) !

Dagur 09 - 20.09.12

Við náðum loksins að ræsa snemma þennan morguninn strákarnir og við vorum passlega að skríða framúr um 8 leytið þegar öll íslenska hersingin mætti á svæðið en nú var allt pakkið komið saman þ.e. Tedda (liðsstjóri) og Haukur (liðsfélagi) líka ! Það var byrjað á því að rölta með allt liðið á keppnis skrifstofuna og fá ýmis atriði á hreint. Svo sóttu strákarnir leiguhjólin sín sem áttu eftir að sækja og allir fóru að vinna í hjólunum sínum inní pitt. Tedda fór á fullt að finna svör við ótal spurningum og fá öll atriði á hreint í kringum keppnina. Við skruppum svo í hádegismat í tveimur hollum svo að pittsvæðið okkar stæði ekki ómannað en núna var búið að setja upp veitingastað/mötuneyti á einu pitt svæðinu sem var alveg að gera sig. Það var svo haldið áfram að græja hjól og gera þar til klukkan nálgaðist 3 en þá græjuðum við okkur allir í galla og byrjuðum á því að rúnta yfir á skrifstofuna til að klára pappírsmál fyrir alla liðsmennina en svo fórum við allir saman á hjólunum út í "test" braut sem var í um 8km í burtu, Gunni og Tedda fylgdi okkur á bílaleigubíl til að vera okkur innan handar og fylgjast með.

Þetta var MX braut sem var orðin vel grafin og fín til að finna hvernig hjólin voru að virka. Við tókum allir góða keyrslu þarna og ég var að finna mig alveg þrusu vel á Husaberg-num, það voru góðir pallar í brautinni sem ég tók alla og var mjög sáttur með hjólið. Þegar allir voru búnir að prufa nóg rúntuðum við til baka upp í pitt. Ég skellti mér niður á þvottastöð og skolaði af hjólinu, hinir fóru með hjólin í geymslu hjá KTM, Kári þurfti reyndar fyrst að fara með Husaberginn sinn í skoðun í KTM "service-inn" en fjöðrunin og krafturinn í því var eitthvað skrítinn. Við hjálpuðumst svo öll að við að taka aðeins til á pitt svæðinu okkar og raða almennilega afturí bílinn hjá mér og skipuleggja þannig að allt væri aðgengilegt og fínt, strákarnir geyma aukadekkin sín klár með "mousse" í afturí bílnum svo það sé klárt til að grípa í þegar kemur að því að skipta í keppninni. Þegar allt var orðið fínt og flott skelltum við okkur öll saman í kvöldmat og fundum þetta fína veitingahús stutt frá þar sem við fengum steik og með því. Mér var svo skutlað upp í pitt og þau hin héldu sína leið á hótelið þar sem þau gista núna öll fram yfir keppni.

Ég kom mér fyrir í bílnum, byrjaði á að taka aðeins til og skipuleggja allt dótið þar sem það var ekki búinn að vera mikill tími í það og svo slappaði ég bara af fram eftir kvöldi og græjaði frétt á síðuna.

Núna í þessum töluðu er ég að skríða uppí koju og detta í svefninn fyrir átök morgundagsins ;) ! Planið á morgun er að byrja á að renna aftur út í "test" brautina og prufa aðeins meira, Kári þarf að sjá hvort hjólið sitt er eitthvað betra og svo bara allir að finna sig betur á hjólunum enda flestir ekki vanir KTM eða Husaberg hjólum. Svo er planið að fullgræja hjólin fyrir skoðun og dúndra þeim í gegn og inn í "Parc Fermé" sem er geymslustaðurinn fyrir hjólin yfir keppnina. Þá fáum við hjólin ekki aftur fyrr en á mánudagsmorgun þegar keppnin byrjar. En í "Six Days" eru hjólin semsagt alltaf geymd inní þessu svokallaða "Parc Fermé" geymslusvæði á milli keppnisdaga, þ.e. í byrjun dags sækjum við hjólin á réttum tíma þangað, fáum 10 mínútur til viðgerða í pittinum, svo er lagt af stað inn í keppnisdaginn, í lok dags endar maður svo niður í pitt aftur og hefur 15 mínútur til viðgerða áður en maður þarf að skila hjólinu aftur inn á geymslusvæðið. Þannig það er eins gott að hjólin séu öll klár áður en við förum á morgun og skilum þeim inn ;) ! Ef allt gengur upp og við höfum tíma ætlum við að reyna að nýta eftirmiðdaginn í að kíkja svo á eitthvað af leiðunum í keppninni, en í dag var okkur m.a. sagt af svakalegri brekku sem við þurfum að keyra á degi 3 og 4, á að vera um 1 km á lengd og ekkert nema grjót og ógeð upp í mót... og það sem meira er að samkvæmt spánni á akkurat að rigna þessa daga hehe ! Bara stuð !

Þar til næst,
Jonni