• 01.jpg
  • 02.jpg
  • 03.jpg
  • 04.jpg
  • 01.jpg
  • 02.jpg
  • 03.jpg
  • 04.jpg
  • 01.jpg
  • 02.jpg
  • 03.jpg
  • 04.jpg
  • 01.jpg
  • 02.jpg
  • 03.jpg
  • 04.jpg

SIX DAYS EUROTRIP 2012 - RACE DAY 4

Dagur 4 er yfirstaðinn og það var sama leið frá því í gær nema hvað það rigndi eldi og brennisteini í nótt og framundir morgun ! Áfram alveg geggjað að sjá hvað það eru margir sem fylgjast með okkur hérna á síðunni ;) ! Hér er "update" frá deginum !

Dagur 16 - 27.09.12 (Race Day 4)

Ég rumskaði við klukkuna um 7 leytið en var nú ekki kominn framúr þegar liðið var mætt undir fortjaldið hjá mér til að skýla sér frá ausandi rigningunni sem var nú eitthvað að minnka samt. Á tímabili um nóttina var rigningin svo mikil að ég vaknaði við drunurnar og skildi ekkert hvað væri í gangi ! En ég stökk framúr og græjaði hafragrautinn til að fylla á orkubirgðirnar fyrir daginn, svo hoppaði ég í gallann og strákarnir líka. Rigningin var svo eiginlega hætt þegar við röltum niður að "parc fermé", Kári fór fyrstur af stað og ég svo 15 mínútum seinna.

Ég gerði ekkert sérstakt í þjónustustoppinu nema græja tímaspjaldið á hjólið og fara smá yfir hjólið. Svo var rúllað út í start og klukkan 08:40 lagði ég af stað inní daginn, fyrstu sérleiðinni var sleppt vegna bleytu en þegar við keyrðum framhjá henni sá maður að hún var gjörsamlega á floti. Það var því bara brunað yfir á fyrsta þjónustustopp og helvíti var kalt á leiðinni, eins gott að vera í jakka, maður var pínu með varann á þar sem allt var rennandi blautt og sleipt, en þangað kom ég samt með næstum 20 mínútur í stopp fyrir fyrsta tímahliðið. Veðrið var að lagast mikið og sólin að brjótast fram þegar ég lagði af stað í næsta hluta leiðarinnar en hann var með margar erfiðustu brekkurnar og eina sérleið, mér gekk rosa illa í brekkunum, mikið af liði stopp sem ég festist á eftir og svo bara klaufaskapur.

Sérleiðin var svo alveg svakalega sleip og ég reyndi að keyra eins og ég gat en manni leið eins og algerum byrjanda í sleipri drullunni og grjótinu. Ég sá svo að ég var orðinn frekar tæpur á tíma og reyndi að keyra eins stíft og ég gat en það dugði ekki til, tók bensín í flýti í þjónustustoppinu og svo brunaði ég í tímahliðið og kom 4 mínútum of seint. Úff, var á algerum bömmer yfir þessu en reyndi að hrista það af mér og hugsaði mér að ég myndi bara gera betur í næsta hring. Næsta sérleið var svo svakalega krefjandi enduro í skógi í sleipum rótum, grjóti og drullu, mér gekk þokkalega en samt enginn ofsa hraði.

Ég náði svo að halda tíma yfir daginn en í seinni hringnum gekk mér mun betur í brekkunum og sumstaðar var búið að breyta leiðum og taka út hluta en mér sýndist margir vera að safna refsimínútum þarna fyrripart dags. Maður sá líka fullt af liði stopp útí braut að græja og laga hjólin sín, enda ekki skrítið miðað við aðstæðurnar og átökin. Seinnipart dagsins vorum við Haukur svo á svipuðum stað, hann var kominn með 3 mínútur í refsingu og var þá einni mínútu á undan mér, ég náði stundum að keyra hann uppi á ferjuleiðum og það var snilld að geta keyrt með honum. Í seinni hringnum voru líka leiðirnar búnar að þorna svakalega mikið frá því fyrr um daginn, svakalegur munur á sumum sérleiðunum.

Á leiðinni til baka var farið í gegnum sérleiðinna sem var sleppt um morguninn og ég náði bara helvíti góðu flæði í gegnum beygju brjálæðið þrátt fyrir mikla sleipu og rötta ! Ég og Haukur komum svo samferða upp í tímahlið fyrir þjónustustoppið, ég skipti um loftsíu, hefði ekki veitt af nýju afturdekki en var ekki með nýtt tilbúið og ákvað að láta hitt duga áfram. Svo það var bara brunað í endamarkið og ég rúllaði græjunni inn í "parc fermé" ;) ! Þegar ég kom upp í pitt var Kári þar og hafði honum gengið mjög vel yfir daginn, fyrir utan smá kröss á erfiðu sérleiðinni í skóginum, samt á tíma yfir daginn og á góðu róli. Restin kom svo koll af kolli og allir kláruðu daginn, nokkrar refsimínútur en aðal atriðið að allir kláruðu. Daði var 3 mínútum seinn og Gulli 11 mínútum en hann lenti í því að missa afturbremsuna næstum allan daginn sem getur ekki hafa verið þægilegt í öllu skógarógeðinu ! Dælan fór víst að leka en hann náði samt að redda því í þjónustustoppinu í lok dags og því klár í morgundaginn.

Við vorum allir hrikalega sáttir með þetta enda erfiðasti partur keppninnar búinn ! Menn komu sér úr gallanum og gengu frá, þau komu sér svo út á hótel og ég slappaði af inní bíl og kíkti á úrslit dagsins. Kári kominn í 119. sæti, ég 156, Haukur 157, Daði 166 og Gulli 170, Ísland komið í 17. sæti. Ég fór aðeins yfir tímana á sérleiðum dagsins hjá mér og það var greinilegt að erfiða sérleiðin var að trufla mig mest, þar var ég að tapa mestum tíma á ökumennina í kringum mig, ég var svona pínu svekktur með refsimínúturnar en maður verður bara að halda haus og reyna að gera betur það sem eftir er. Maður var svo eitthvað helvíti slakur svo ég lagðist aðeins uppí koju og lagði mig smá yfir Friends á tölvuskjánum, það var greinilegt að það vantaði orku á tankinn því ég rumskaði ekki við vekjaraklukkuna og vaknaði ekki fyrr en um 9. Ég hoppaði í sturtu og svo eldaði ég mér kvöldmat, eftir matinn dundaði ég smá í tölvunni áður en ég skreið undir sæng til að safna kröftum fyrir morgundaginn, á morgun er ný leið, 308km og hún á að vera öll svona medium, 8 sérleiðir sem eiga líka að vera medium. Það er því bara að kýla á þetta og taka á því á sérleiðum morgundagsins, reyna að keyra sig upp og auðvitað skila sér í mark !

Bara morgundagurinn og hinn eftir ;) !

Jonni

SIX DAYS EUROTRIP 2012 - RACE DAY 3

Þriðji keppnisdagurinn búinn og í dag fengum við að taka á því, um 350km leið, virkilega krefjandi á köflum og svo 8 sérleiðir ! Áfram geggjað að sjá heimsóknirnar og "comment-in" ! Hér kemur "update" frá deginum ;) !

Dagur 15 - 26.09.12 (Race Day 3)

Fór á lappir um 7 leytið og var rétt búinn að klæða mig þegar liðið var mætt fyrir utan, ég skellti í mig hafragrautnum og svo smellti ég mér í gallann með strákunum. Það var mjög fínt veður, bjart og mildur hiti ! Kári fór fyrstur af stað í "parc fermé" og svo fór ég næstur 12 mínútum seinna, í þjónustustoppinu var ekkert sérstakt að græja svo ég ákvað að fara bara yfir boltana á hjólinu, þegar ég ætlaði svo að tjékka á boltanum fyrir gírpedalann var ég varla búinn að taka á lyklinum þegar hann small í sundur, SHIT SHIT öskraði ég og mekkinn sem var að hjálpa mér öskraði það sama og hljóp og sótti borvél, ég boraði í kvikindið og var svo heppinn að brotið skrúfaðist bara á kaf inn í öxulinn og við náðum að setja nýjann bolta á eftir ! Fjúff, pínu stressandi, en eftirá að hyggja var kannski bara gott að ég sleit hann því hann var greinilega orðinn slappur og hefði ekki verið sérstakt að missa gírpedalann útí braut ! Ég kom akkurat á mínútunni út í start og smellti hjólinu í gang og svo var brunað af stað inní daginn, fyrsta ferjuleiðin var mikið á vegum fyrir utan fyrstu sérleiðina og það var orðið helvíti kalt bara í krosstreyjunni. Með mér á mínútu voru Dani og svo strákur í Junior flokki frá Argentínu, það var mjög fínt "tempo" á okkur og við fylgdumst yfirleitt að í gegnum daginn og vorum oft búnir að ná mönnum á næstu mínútu eða jafnvel þarnæstu á ferjuleiðunum.

En á þessum degi fengum við alveg að taka á því, það voru hrikalegar brekkur á ferjuleiðunum, bæði snarbratt upp og niður með grjóti, rótum og allskyns ógeði, "endurocross" þrautir og allur pakkinn ! Sérleiðirnar voru allt frá því að vera beygju sikk sakk á ökrum og uppí hrikalegt skógarógeð með fáránlega sleipum rótum og grjóti, alls 8 sérleiðir ! Ég var alltaf á tíma yfir daginn og hafði yfirleitt um 10 mínútur í stopp fyrir hvert tímahlið, einu mistökin sem ég lenti í voru tvö saklaus og aulaleg "slæd" á hliðina á ferjuleiðum og svo lenti ég í því á erfiðustu sérleiðinni að festast í leiðinlegri brekku sem var öll í ógeði, fáránlega sleip með rótum og grjóti, tapaði heilli 1 og hálfri mínútu á þeirri sérleið sem var helvíti dýrt ! Hitinn yfir daginn var búinn að hækka vel og það bunaði af manni við átökin yfir daginn ;) !

Stuðningsmennirnir okkar stóðu sig áfram hrikalega vel í dag, Robert og konan hans voru eins og áður um alla braut og alltaf sá maður íslenska fánann og þau hvetjandi mann á fullu, Tedda, Gunni og Ragna voru líka um allt og fylgdust vel með okkur strákunum. Ekkert smá gaman í þessu brekkurugli öllu að hafa svona mikið af áhorfendum sem er alveg trylltir að styðja mann á hliðarlínunni ! Allt hófst þetta að lokum og ég skilaði mér í endamark með góðan tíma til að undirbúa mig fyrir þjónustustoppið en í því skipti ég um framdekk, loftsíu og fór léttlega yfir hjólið, slagið í demparalegunni virðist bara vera það sama svo mekkinn hjá KTM sagði mér bara að halda áfram svona. Ég renndi þá bara í endamarkið og átti heilar 7 mínútur afgangs, trillaði svo hjólinu inn í "parc fermé" ! Þegar ég kom upp í pitt sat Kári þar pollslakur og svo týndust allir á svæðið, því miður hafði Ágúst dottið út þennan daginn, afturdekkið hjá honum var vírslitið og vildi ekki tolla á felgunni og allt í skralli, kallinn var helvíti súr skiljanlega, við hinir kláruðum allir á réttri mínútu og allt í góðu. Aftur var græjaður kjúlli á línuna og svo sátu allir og hámuðu í sig áður en við gengum frá dótinu okkar.

Þau komu sér svo öll út á hótel og ég tók því rólega í bílnum. Skellti mér í hrikalega langa sturtu þar sem ég skiptist á að hafa sjóðandi hita og svo ískallt til að reyna að fyrirbyggja strengi en maður var alveg farinn að finna fyrir höndunum á sér í dag. Svo gúffaði ég í mig pasta máltíð og dundaði svo í tölvunni. Næst á dagskrá er það kojann til að safna kröftum fyrir morgundaginn en hann er alveg eins og í dag, sama leið og það gæti rignt eitthvað í nótt og fyrramálið sem gæti gert þetta enn skrautlegra ;) ! Staðan eftir daginn er þannig að Kári er kominn uppí 124. sæti, ég 162, Haukur 170, Daði 179, Gulli 182 og Gústi dottinn út, Ísland komið uppí 18. sæti, Svisslendingar eru næstir á undan okkur með gott forskot en svo eru næstu lið á eftir okkur ekki svo langt frá svo það þýðir ekkert að slaka á, þó auðvitað sé það eina sem skiptir máli að halda haus og komast heilir í gegnum daginn !

Bara hinn og hinn og hinn eftir ;) !

Jonni

SIX DAYS EUROTRIP 2012 - RACE DAY 2

Annar keppnisdagurinn búinn og allir í góðu geymi, hér er "update" frá deginum ;) ! Þið standið ykkur hrikalega vel að fylgjast með okkur strákunum, fullt af heimsóknum og "comment-um" til að peppa okkur í átökin !

Dagur 14 - 25.09.12 (Race Day 2)

Ég stökk framúr um 7 en þá var liðið akkurat mætt í pittinn til mín. Eftir hrikalega öflugann hafragraut græjaði ég mig upp með strákunum, Kári var fyrstur af stað og sótti hjólið sitt í "parc fermé" klukkan 08:16.

Ég fór svo næstur 10 mínútum seinna, gerði ekkert sérstakt í þjónustustoppinu fyrir startið nema græja tímamiðann minn á stýrið og fara svona létt yfir hjólið, mekkinn tjékkaði á vatninu hjá mér og svo trillaði ég hjólinu út í start. Tvígengis kvikindið datt að sjálfsögðu beint í gang og ég lagði af stað inn í dag tvö ;) ! Ég var á mínútu með einum gæja í "Junior" flokki frá Venesúela og svo Svisslending, það gekk allt mjög vel yfir daginn, brekkan á ferjuleiðinni var mun léttari í dag, orðin þurrari og ég náði að halda ferðinni vel upp alla leið í báðum ferðum. Einu mistökin sem ég gerði voru tvö "slide" á hliðina í beygjubrjálæðinu á tveimur sérleiðum og svo skoppaði ég einu sinni út á hlið á rót inní skógi á einni sérleið. Svo reyndar lennti ég í því að vera stoppaður af löggunni, þeir höfðu þá stillt upp hraðamyndavél úti á túni við veg þar sem við vorum að keyra útúr bæ, ég var fyrir aftan annan ökumann og var bara að elta hann á sama hraða en hann var ekki tekinn, löggan sagði mér bara að ég hefði náðst á mynd og svo fékk ég að fara. Mér fannst eins og fyrri hringurinn á leið dagsins væri heil eilífð að líða en svo leið sá seinni mun hraðar og áður en ég vissi af var ég kominn inn í loka þjónustustopp.

Þar byrjaði ég á að skipta um afturdekk, skipti um loftsíu og svo ætlaði ég að reyna að skipta um neðri leguna í demparanum sem er aðeins farin að gjögta en mekkinn sagði að hún væri bæði ekki svo slæm og það væri sennilega of lítill tími, átti samt 8 mínútur eftir en hann vildi meina að það væri svo erfitt að koma pakkdósunum í við leguna. Ég rúllaði því bara í endamark en við "parc fermé" mætti löggan mér og tilkynnti mér að sektin mín væri heilar 185 evrur var mældur á 62km í 30km götu, gríðarleg hamingja, ég átti að fara og sækja pening og koma svo aftur þangað og borga... Ég rölti upp í pitt á algjörum bömmer, 30 þúsund kall fyrir þennan klaufaskap, tek allt til baka sem ég sagði um lögguna í gær og hvað hún væri hjálpsöm...! Það var enginn kominn upp í pitt og Gunni var með lykilinn að bílnum svo ég kom mér bara úr gallanum og slappaði af þangað til liðið mætti. Ragna (kona Ágústs) fór svo og sótti kjúkling handa okkur öllum strákunum og það var ekkert smá gott að fá orku svona strax eftir daginn, það sátu allir í pittinum og hámuðu í sig áður en við gengum frá og þau komu sér út á hótel en ég hjólaði niður að "parc fermé" og gerði upp við lögguna !

Ég slakaði mér bara inn í bíl og dundaði í tölvunni, skoðaði úrslit dagsins í landsliðakeppninni, Kári endaði númer 133, ég 167, Haukur 176, Daði 187, Gulli 193 og Gústi 208, Ísland áfram í 20. sæti ! Svo henti ég mér í sjoppuleiðangur á fjallahjólinu áður en ég eldaði mér hrikalega pasta máltíð. Eftir matinn var það svo bara fréttagerð, sturtuferð og núna þegar ég er að henda þessu inn er ég á leiðinni uppí koju að safna kröftum fyrir morgundaginn en þá hjólum við heila 350km á nýrri leið og erum að hjóla í næstum 9 klukkutíma ;) !

"Two down, four to go" ;) !

Jonni

SIX DAYS EUROTRIP 2012 - RACE DAY 1

Þá er fyrsti keppnisdagurinn búinn og hér kemur "update" frá deginum ! Takk fyrir allar heimsóknirnar, vonandi að þið haldið áfram að fylgjast svona vel með okkur strákunum og endilega skilja eftir "comment" handa okkur ;) !

Dagur 13 - 24.09.12 (Race Day 1)

Það var ræs rétt fyrir 7 hjá mér en ég var rétt að skríða framúr kojunni þegar ég sá að restin af íslenska liðinu var að mætt fyrir utan hjá mér og allir að byrja að græja sig. Ég sleit í mig eins miklum og góðum morgunmat og ég gat áður en ég skellti mér í gallann, Ágúst fór fyrstur af stað af okkur Íslendingunum og svo næstir fóru Gulli og Haukur saman.

Við Daði og Kári vorum svo allir saman á mínútu og sóttum hjólin okkar í "parc fermé" klukkan 08.11, fengum svo 10 mínútur í þjónustu í KTM pittinum við rásmarkið þar sem við gerðum nú ekkert nema bara koma tímaspjaldinu okkar á hjólið og samstilla klukkuna okkar við keppnisklukkuna. Svo trilluðum við út í rásmarkið og klukkan 8.26 vorum við ræstir af stað og vorum kynntir sem "The Icelandic young boys" þegar við renndum af stað í fyrsta keppnisdaginn. Eftir stutta ferjuleið var komið að fyrstu sérleið sem var mega sikk sakk á plægðum akri. Maður var nú ekki alveg búinn að keyra sig í gang þegar maður lagði af stað en undir lokin var maður að verða kominn í gírinn, moldin var rosa spes, virkaði mjög sleip þegar maður kom inní beygjur en svo þegar maður botnaði útúr þeim þá allt í einu fékk maður þvílíkt grip. Við fórum þrír í röð inn á sérleiðina, Kári fyrst, svo ég og svo Daði. Þegar við komum útaf sérleiðinni hópuðumst við saman aftur og keyrðum næstu ferjuleið saman að næsta þjónustustoppi og tímahliði þar sem við þurftum að vera á réttri mínútu samkvæmt tímaplaninu okkar.

Við komum í þjónustustoppið með góðar 10 mínútur fyrir tímahliðið og gerðum ekkert sérstakt nema fá okkur að drekka og borða. KTM þjónustan var alveg að gera sig, allt mjög vel upp sett og allt klárt, mekki klár þegar maður kom inn með stand undir hjólið og strax fyllt bensín á hjólið og athugað hvort það væri eitthvað sem þyrfti að gera. Svo gekk dagurinn áfram og við vorum alltaf með góðan tíma fyrir tímahlið og á góðu róli, við reyndum að fylgjast 3 að á ferjuleiðunum og okkur gekk vel í gegnum þær og sérleiðirnar líka. Mesta hindrun dagsins var svakaleg brekka á einni ferjuleiðinni, var sennilega um 500m snarbrött og öll í grjóti og rótum. Mér gekk vel upp hana í fyrri hringnum en í þeim seinni missti ég ferðina í einhverju brölti og missti hjólið út á hlið, það gekk samt vel að komast aftur af stað aftur og klára kvikindið. Við fórum semsagt 2 hringi á leið dagsins og í gegnum 6 sérleiðir og vorum við allir 3 að keyra mjög öruggt og flott, gekk líka vel á ferjuleiðunum. Fréttum svo að það gengi allt vel hjá hinum Íslendingunum líka, það var svo alger snilld að sjá allt í einu íslenska fánann í einni brautinni og brjálað lið á kanntinum að hvetja en þá var það hinn pólsk/íslenski Robert Knasiak sem var mættur með konunni að hvetja okkur strákana. Það var líka ótrúlegt hvað það var mikið af fólki um alla braut að horfa á og hvetja, t.d. þegar maður kom inn í einn bæinn voru gangstéttarnar troðfullar af krökkum og greinilegt að heilum skóla hafði verið hleypt út að fylgjast með, allir vinkuðu og hrópuðu þegar maður keyrði framhjá, í brekkunni var líka allt troðið af liði að hvetja og benda manni á bestu leiðirnar og svo oft mætti manni heil hersing einhversstaðar lengst útí skógi sem veifaði og hvatti mann áfram, hrikalega gaman.

Við "the young boys" kláruðum svo daginn allir á tíma og gerðum ekkert í þjónustustoppinu í lok dags nema skipta um loftsíu og fara yfir bolta á hjólinu. Svo skiluðum við hjólunum inn en við "parc fermé" stóð löggan og pikkaði Kára út en þá hafði hann verið myndaður og fékk sekt uppá heilar 25 evrur, gat nú ekki sloppið betur en við erum nokkuð vissir að löggan hafi náð honum þegar hann kom í prjóni upp brekku á malbikuðum vegi, sá lögguna og negldi niður, við glottum til hvorns annars og Kári sagðist hafa séð lögguna ætla að spenna á sig beltið en þegar Kári negldi niður hafi hann sleppt því hehe ! Það er allt annað hér miðað við Finnland í fyrra þegar löggan gerði ekkert nema reyna að veiða keppendur á ferjuleiðunum, hér eru löggur um alla braut að stöðva umferð þar sem við þurfum að fara yfir vegi og bara vinna með keppninni.

Við komum svo upp í pitt og þar hittum við loksins alla og allir voru heilir og góðir eftir daginn, eini sem var með refsimínútur var Gústi en hann hafði klúðrað sér eitthvað í brekkunni og nældi sér í 5 mínútur. Það er ekkert til að hafa áhyggjur af á meðan allir skila sér í mark ;) ! Menn klæddu sig svo úr göllunum og gengu frá, við kíktum svo á úrslit dagsins í landsliðakeppninni, Kári endaði númer 138, ég 168, Daði 180, Haukur 183, Gulli 191 og Gústi 206, Ísland í 20. sæti og eigum ekki langt að sækja á næstu tvö lið ! Síðan héldum við öll út á hótel í kvöldmat, ég stökk inn í súpermarkað á leiðinni að sækja smotterí sem vantaði á birgðirnar í bílnum. Það var svo að sjálfsögðu svera steikin í matinn til að byggja upp forðann fyrir morgundaginn, fengum okkur meira að segja pasta í forrétt líka. Ég fékk svo far til baka með Teddu en hún þurfti að mæta á liðsstjórafund kl 8. Þegar ég kom heim á Hótel Sprinter græjaði ég svona hitt og þetta til að allt væri klárt fyrir morgundaginn, skellti mér svo í sturtu og dundaði svo í tölvunni og er núna lagstur uppí koju ;) !

Einn dagur af sex búinn, svo það er nóg eftir ;) ÁFRAM ÍSLAND !!!

Jonni

SIX DAYS EUROTRIP 2012 - ÁFRAM ÍSLAND !

Hér kemur splunkuný romsa héðan frá Þýskalandinu, algjör snilld að sjá allar heimsóknirnar á síðustu frétt og "comment-in" ;) !

Dagur 11 - 22.09.12

Ég sofnaði svo seint eftir fréttaskrifin að ég rankaði ekki við mér fyrr en að Gulli, Gunni og Gústi börðu á dyrnar hjá mér rétt uppúr 9. Restin fylgdi svo í kjölfarið og það var ekkert stress á okkur en það sem var framundan var fundur með KTM þjónustuliðinu klukkan 10. Við röltum yfir í KTM þjónustutjaldið um 10 og fljótlega hófst fundurinn þar sem farið var yfir hvernig þjónustan virkar, hvað þeir gera fyrir okkur og svo gáfu mekkarnir góð ráð með hvað væri sniðugt að gera til að auðvelda og flýta fyrir í viðgerðarstoppunum í byrjun og lok dags. Þegar öllum okkar spurningum var svarað var ákveðið að drífa sig í smá verslunarleiðangur til að sækja smotterí sem vantaði og svo þurfti hótel liðið að renna út á hótel og sækja dót til að setja í kassa sem fara út á þjónustustaðina í brautinni með KTM gæjunum, en á fundinum kom í ljós að dótið sem við vildum setja í það þurfti að vera komið til þeirra fyrir klukkan 1 í dag. Við vorum allir mjög sáttir eftir fundinn og þessi þjónusta lítur mjög vel út og þjónustuliðið virtist allt liðlegt og hresst.

Í verslunarleiðangrinum sóttum við poka eða plastbox til að setja okkar dót í til að setja á KTM þjónustustaðina, en það var ítrekað að það þyrfti að merkja vel okkar poka eða box svo mekkarnir og við ættum auðveldara með að finna dótið okkar í þjónustustoppunum. Svo var brunað út á hótelið og strákarnir sóttu gleraugu, hanska o.fl. til að græja í poka eða box fyrir þjónustustaðina. Fyrstu tvo dagana eru 3 þjónustustaðir útí braut svo við þurftum að græja 3 skammta og setja í kassana sem fara út á staðina. Á meðan við strákarnir vorum í þessu "mission-i" var Tedda á liðstjórafundi uppí pitti. Á leiðinni frá hótelinu upp í pitt lentum við því að fljúga bílaleigubílnum en þá var svona svakaleg dæld í veginum við lestarteina sem lágu yfir hann og þetta myndaði bara svaka step down niður í brekku í götunni, bíllinn með 7 manns um borð höndlaði þetta eins og ekkert væri haha, tek það fram að þetta gerðist alveg óvart ! Þegar við komum upp í pitt var allt græjað í hvelli og skilað inn til KTM en svo áttum við að mæta í liðs myndatöku í göllum og alles svo það var hoppaði í galla og stillt upp í "official" myndatöku þar sem ótal ljósmyndarar smelltu af okkur mynd. En það bjargaði okkur að Bandaríska liðið var á undan okkur svo það var fullt af liði sem var mætt til að taka myndir og smellti auðvitað af okkur líka hehe !

Við drifum okkur svo bara úr göllunum og það var ákveðið að fara í matar og brautarskoðunarleiðangur. Byrjað var að kíkja á sérleið sem er næst pittinum en þá sérleið keyrum við alla dagana tvisvar, bæði í byrjun dags og lok dags. Sérleiðin var svo ekki merkilegri en gríðarlegt sikk sakk á flötum plægðum akri, jarðvegurinn moldarkenndur og ekkert annað en að reyna að halda bara í botni og bremsa sem síðast inn í beygjurnar ;) ! Við rúntuðum svo upp bæinn upp við pitt svæðið í leit að veitingastað og eftir að hafa flakkað á milli staða sem voru annaðhvort "take away" eða lokaðir fundum við fínann stað þar sem var hægt að fá samlokur, pasta og eitthvað svona létt, sem passaði okkur einmitt fínt. Á meðan við biðum eftir matnum fór Tedda yfir ýmis atriði sem var farið yfir á liðstjórafundinum.

Eftir fínan síðdegisverð og ís á eftir var haldið upp í pitt aftur en við áttum að mæta í skrúðgöngu fyrir opnunarathöfnina klukkan 5. Við röltum og fundum okkar stað í röðinni og þá var hinn eini sanni Chris Pfeiffer með svaka "stunt" sýningu á racer mótorhjóli, prjónaði útum allt í hringi og spólaði og var alveg hrikalegur. Svo mætti Matthias Dolderer sem er hrikalegur flugmaður og var með svakalega listflugs sýningu yfir brautinni, báðir aðilarnir eru sponsaðir af Red Bull sem er að gera svakalega hluti á þessari keppni, enda heitir keppnin núna "Red Bull Six Days" ! Röðin mjakaðist svo áfram og loks kom að íslenska liðinu að labba upp á svið og þar vorum við ökumennirnir kynntir fyrir framan fulla stúku af áhorfendum. Við fylgdumst svo með restinni af þjóðunum fara í gegnum kynninguna en svo röltum við upp í pitt en framundan voru einhver tónlistaratriði og önnur skemmtiatriði sem við höfðum ekki nennu í.

Á leiðinni röltum við í gegnum svaka sölubás þar sem allskyns hjóladót og föt voru til sölu og hægt að gera hrikalega góð kaup. Svo ákváðu þau hótel liðið að fara og borða kvöldmat á einhverjum veitingastað nálægt hótelinu en ég greip mér bara bita í einum sölubásnum hérna á svæðinu og hélt svo saddur og sæll upp í bíl og datt í hrikaleg rólegheit í tölvunni.

Ég skellti mér svo í sturtu og sjænaði strákinn til áður en ég kíkti einn hring í "Race Party-ið" sem var aftur í blússandi gangi við hliðiná pittinum og núna var ennþá meira af fólki. Ég greip mér smá kvöldnasl áður en ég hélt inn á Hótel Sprinter aftur og datt í afslöppun og kósý. Sofnaði svo uppí koju yfir einhverri ræmu á tölvuskjánum ;) !

Dagur 12 - 23.09.12

Vaknaði við vekjaraklukkuna og rétt stuttu seinna hringdi Kári og sagði að þeir væru á leiðinni að sækja mig til að fara að kíkja á sérleiðir. Ég var rétt búinn að slafra í mig morgunmatnum þegar þeir mættu á dyrnar hjá mér og við skelltum okkur af staði í leiðangur. Við byrjuðum að á að kíkja á sérleið sem er á degi 5, hún var mjög flott, lá um námu og var jarðvegurinn moldarkenndur, nokkrar brekkur en ekkert hrikalegt.

Næst ætluðum við að kíkja á sérleið sem er á degi 3 og 4, en þegar við komum að punktinum í GPS tækinu var ekkert að sjá og við komnir inn á göngustíg við dýragarð og það sem virtist vera elliheimili haha ! Það kom svo í ljós að það hafði ruglast einn tölustafur í hnitunum og vorum við búin að keyra algjöra vitleysu. Við leiðréttum hnitin og keyrðum í rétta átt að sérleiðinni, á leiðinni þangað keyrðum við framhjá hótelinu þeirra og ákváðum að skella okkur í hádegismat á pizzastað þar við hliðiná. Eftir svaka góða flatböku var haldið áfram að sérleiðinni eftir þá rúmlega 100km óþarfa útúrdúr. Sérleiðin var mjög flott, byrjaði á smá endurocross, drumbum og svo inn í netta motocross braut og svo um grjótabrekkur, allt mjög flott og skemmtilegt. Við kíktum svo á svakalega brekku sem þeir kalla "Devils Hill" sem var rétt hjá sérleiðinni og er sú brekka hluti af ferjuleið. Þetta var hrikalega löng brekka með grjóti, rótum, klöppum og öllum pakkanum, verður bara stuð að berjast þarna upp !

Við keyrðum svo að annarri sérleið sem er á degi 3 og 4 og lá hún í gegnum svaka skóg, hrikalega mikið af trjárusli, smá drulla, leirkennd mold og stemning ! Þegar við komum aftur í bílana var klukkan að orðin 4 og það var ákveðið að halda niður í pitt og græja dekkin okkar yfir í KTM þjónustupittinn og svona fínisera. Það endaði svo á að við fórum bara á öðrum bílnum niður í pitt við Gulli, Gunni, Kári og Daði, hin fóru heim á hótel. Við kláruðum að græja dekkin okkar, merkja þau en svo var KTM þjónustupitturinn lokaður svo við gátum ekki komið dekkjunum þangað í kassana okkar, verðum þá bara að gera það í fyrramálið. Strákarnir hjálpuðu mér svo að raða aðeins til afturí bílnum og ganga frá áður en þeir héldu til baka á hótelið.

Ég skellti mér í smá hjólatúr á fjallahjólinu um pittinn en þá var búið að pakka flestum sölubásum saman og lítið að skoða, ég spurði svo hliðverðina sem passa pittinn minn hvort það væri einhver súpermarkaður opinn en það var ekkert svona á sunnudegi nema bara bensínstöðin hérna fyrir neðan. Ég brunaði samt þangað því mig vantaði kók ;), á leiðinni upp í pitt aftur hjólaði ég í gegnum svaka tívolí sem er búið að setja upp hérna rétt fyrir neðan pittinn, verðum klárlega að kíkja í það eitthvað kvöldið í vikunni ! Þegar ég kom upp í bíl kláraði ég að græja nýja fína helluborðið í bílinn og eldaði mér svo svakalega "bixie" blöndu með spældum eggjum og át skammt sem átti að duga fyrir tvo haha ;) ! Svo dundaði ég við að skipuleggja drasl í mittistöskuna mína fyrir keppnina, spjallaði við Örnu Benný á skype og tók því svo rólega yfir friends á milli þess sem ég græjaði nýja frétt á síðuna.

Er núna að skríða uppí og hvíla mig fyrir morgundaginn en þá er stóri dagurinn mættur þegar allt heila klabbið fer af stað ! Gústi fer fyrstur af stað og sækir hjólið sitt í Parc Fermé klukkan 07:38, Haukur og Gulli fara svo saman klukkan 07:55 og ég, Kári og Daði förum svo allir saman klukkan 08:11, verður bara stuð ;) ! Veðurspáin er orðin svaka fín, núna spáir bara þurru allan tímann fyrir utan einhverja smá dropa aðfaranótt föstudagsins, hitinn á að vera í kringum 20 gráður svo þetta getur varla orðið betra, vonum bara að það haldist ! Haldiði endilega áfram að skilja eftir "comment" á fréttirnar, allir hérna hafa svaka gaman af að sjá þau frá ykkur !

ÁFRAM ÍSLAND !!!

Jonni