SIX DAYS EUROTRIP 2012 - BARA BYRJUNIN...
Fyrir þá sem ekki vita þá er ég hluti af íslenska landsliðinu í enduro sem keppir í ISDE 2012 eða "Six Days" eins og keppnin er betur þekkt sem. Ég ákvað að gera þetta að alvöru ferðalagi og fór á Sprinternum okkar með Norrænu á miðvikudaginn í síðustu viku, þann 12. sept yfir hafið á meginlandið þar sem ég verð í rétt um 3 vikur áður en ég held aftur um borð í skipið og sigli heim. Keppnin byrjar þann 24. sept svo ég hef góðan tíma til að undirbúa og græja allt fyrir það. Eftir keppnina er svo planið að bruna yfir á MXON sem fer fram í Belgíu, síðan tekur við vika af einhverju skemmtilegu hjá mér áður en ég fer í skipið aftur.
Netið um borð í Norrænu var alveg glatað og ég er eiginlega að komast í fyrsta skiptið á almennilegt net núna svo hér kemur hrúgan… ;)
Dagur 1 - 12.09.12
Síðustu dagar voru stífir við að undirbúa bílinn og allt annað og auðvitað allt á síðustu stundu hehe ! Svo var auðvitað þessi stormur sem gekk yfir norðurlandið með tilheyrandi ófærð og veseni ekki að hjálpa til. Það var unnið fram undir morgun uppí Kröflu að smíða koju og græja í Sprinternum og svo koma öllu fyrir. En ég lagði af stað austur frá Mývatnssveitinni rétt eftir hádegið og brunaði austur í ógeðis færð á öræfunum. Stoppaði eldsnöggt á Egilsstöðum að versla smá íslenskt góðgæti til að hafa með og brunaði svo áfram yfir heiðina niður í Seyðisfjörðinn.
Ég tjékkaði mig inn og fljótlega var hleypt um borð, lagði Sprinternum og kom mér svo fyrir uppí káetu númer 7209. Algjör lúxus að vera einn í 4ra manna klefa en planið var auðvitað að hafa Örnu Benný með en svo komst hún ekki frá nýju vinnunni sinni skiljanlega. Ég fylgdist með þegar við sigldum út fjörðinn, greip mér smá bita og svo tók langþráð hvíld við niðrí káetu.
Dagur 2 - 13.09.12
Svaf út eins lengi og ég gat og dundaði mér svo eitthvað í tölvunni þar til við komum til Þórshafnar í Færeyjum rétt eftir hádegið. Það var grenjandi rigning úti en ég klæddi mig upp og tók rölt um Þórshöfn, fór í "moll-ið" og alles ! Það var svosum ekki mikið að gera í landi svo ég rölti aftur um borð einhverntíma um 5 og lagðist í gláp á sjónvarpsþætti í tölvunni og tók því rólega. Stökk svo upp á dekk um kvöldið þegar við sigldum frá Færeyjum og síðan settist ég fram í kaffiteríu til að komast á netið aðeins. Netið um borð var nú ekki uppá marga fiska en ég rétt náði að spjalla aðeins við Örnu og láta vita af mér. Svo tók rúmið aftur við !
Dagur 3 - 14.09.12
Þessi dagur var nú ekki mjög spennandi, bara sigling allan daginn og því ekkert annað að gera en að dunda í tölvunni og glápa á myndir til skiptis. Reyndi eitthvað að kíkja á netið en gafst upp þar sem það var svo hægt. Í eftirmiðdaginn skellti ég mér svo niður í "gym-ið" og tók 45 mínútna róður. Djöfull var ótrúlega skrítið að róa svona á siglingu, fyrst leið mér eins og ég væri alltaf að velta af vélinni og svo kom bara ógleði, en eftir smá vandist þetta allt og ég kláraði hörku púl ! Skellti mér svo í gufubaðið áður en ég fór uppí káetu aftur. Ég kíkti svo uppá dekk og fékk mér snarl og settist með tölvuna út á dekk þar sem það var svo gott veður. Það var hrikalega kósý að sitja í hlýrri hafgolunni í myrkrinu og glápa á tölvuna fram eftir þar til ég kom mér í bólið.
Dagur 4 - 15.09.12
Það var ræs um 8 til að rýma káetuna áður en við kæmum að landi í Hirtshals í Danaveldi um 9. Ég pakkaði öllu og skrolti einhvernveginn fram á gang með allt draslið. Fljótlega var svo hleypt niður á bíladekk og ég gat komið draslinu í bílinn. Svo tók við endalaus bið áður en ég gat komist frá borði á bílnum en það tókst að lokum og ég kíkti einn hring í Hirtshals til að komast aðeins á netið og athuga með eina MX búð sem var lokuð. Það var svo komið fram yfir hádegið þegar stefnan var tekin til Sachsenring þar sem "six days" fer fram en þangað voru rúmir 1000 km ;) !
Það gekk vel að bruna suður Jótlandið og þegar klukkan var að nálgast 4 fann ég Bauhaus rétt við hraðbrautina og kíkti þangað inn í von um að kaupa smá smíðaefni til að græja bílinn betur. Ég gleymdi mér í Bauhaus í góðan klukkutíma og kom þaðan út með allar græjur til að gera bílinn þvílíkt flottann að innan. Við hliðina á Bauhaus var svo súpermarkaður svo ég ég nýtti tækifærið og fór í annan verslunarleiðangur að byrgja mig upp af mat og öðrum nauðsynjavörum. Klukkan var svo að verða 6 þegar ég lagði aftur af stað en ég ákvað að stoppa fljótlega á útskoti við hraðbrautina og kom mér fyrir og hóf innréttingasmíði í bílnum. Græjaði þvílíkt fína "eldhús" innréttingu og festi hana í bílinn áður en ég smellti gashellunni í gang og eldaði kvöldmatinn. Ég græjaði svo aðeins meira til í bílnum en varð að bíða með frekari smíðar þar sem skrúfvélin var orðin rafmagnslaus. Kom mér síðan fyrir í kojunni í fyrsta skiptið sem var að virka svona hrikalega vel og ég sofnaði eins og klettur !
Dagur 5 - 16.09.12
Vaknaði um 10 og fékk mér morgunmat og gekk frá í bílnum áður en ég hélt af stað aftur út á hraðbrautina í suður inn til Þýskalands. Fljótlega eftir að ég kom yfir landamærin tók ég eldsneytisstopp og fékk mér snarl í bílnum en þá var komin þessi svaka blíða. Ferðin hélt svo áfram á hraðbrautinni niður til Hamburg en rétt áður en ég kom þangað heyrði ég í Kára (Kári Sport #46 - Íslandsmeistari í Enduro - Liðsfélagi) og bauð honum og Daða (Daði Skaði #298 - Liðsfélagi) að ég myndi bara sækja þá til Berlín annað kvöld þar sem ég vissi að þeir voru eitthvað að vesenast með far frá Berlín niður að keppnisstaðnum, þetta væri smá útúrdúr fyrir mig en ég hafði nógan tíma. Hann var hrikalega ánægður með þetta og ég tók því væga vinstri beygju frá Hamburg í átt að Berlín. Þangað voru nú ekki nema um 300 km og klukkan var að nálgast 3 svo ég hafði allan tímann í heiminum.
Ég stoppaði svo á "rasthof-i" um 6 leytið og þá voru ekki nema um 50 km eftir til Berlín. Ég gerði vel við mig og skellti mér á stóra "M-ið" og fór svo í áframhaldandi smíðar í bílnum. Nú var það hillusmíði og borð á milli sætanna í bílnum. Smíðin gekk svona svakalega að ég græjaði allt til og tók svo og raðaði öllu dóti og græjaði til í bílnum. Klukkan var þá að nálgast miðnættið og ég var búinn að sjá að það væri net þarna, en auðvitað virkaði það ekki ! Ég ákvað því bara að halda áfram til Berlín aðeins og reyna að finna mér stæði með neti. Reyndi við nokkur útskot en engin net að finna og áður en ég vissi af var ég kominn inn í miðbæ Berlínar. Klukkan var þá að nálgast 1 svo ég lagði bara bílnum á stæði við Tiergarten, sama stað og við Arna höfðum lagt Napoleon í Evrópureisunni okkar 2008. Ég kom mér svo bara fyrir uppí koju og sofnaði yfir Friends á tölvuskjánum ;) !
Núna...
Núna er ég semsagt í Berlín og er búinn að túristast hérna um borgina á "longboard-inu" í bongó blíðu. Sit núna í einhverri jógúrt sjoppu sem ég mundi að var með net sem við fórum á í Evrópureisunni 2008. Strákarnir lenda svo hérna í kvöld og planið er að pikka þá upp og rúlla allavega langleiðina niður að keppnissvæðinu ef ekki alla leið, fer eftir því hvernig gengur. Það á svo að vera net á keppnissvæðinu svo vonandi get ég sent inn "update" þaðan á morgun !
L8er ;)