SIX DAYS EUROTRIP 2012 - HEIMLEIÐIN

Þá er maður kominn heim á klakann eftir hrikalega ferð, hérna eru loksins fréttir frá síðustu dögunum í ferðinni !

Dagur 20 - 01.10.12

Það var ræs um 9 hjá okkur á tjaldstæðinu þarna við Lommel en það þurfti að bruna til Amsterdam til að koma Kára, Daða og Signý í flug ! Við gengum frá í bílnum og komum okkur svo af stað, það var ákveðið að stoppa á fyrsta McDonalds á leiðinni en sá fyrsti var reyndar lokaður svo það var þá sá næsti sem við brunuðum að og fengum okkur að éta áður en við brunuðum áfram til Amsterdam. Þau áttu flug klukkan 2 og okkur gekk þokkalega, vorum komin á völlin rúmlega 12, hefðum ekki mátt vera mikið seinni ;) ! Ég fylgdi þeim inn á völl og þeir strákarnir reyndu að ljúga sig eins og þeir gátu út úr yfirvigt sem endaði með því að þeir gátu borgað bara fyrir auka íþróttatösku 35 evrur hvor. Þokkalega sloppið, þau að verða á síðustu stundu svo ég kvaddi þau í flýti og þau hlupu af stað inn í öryggis tjékkið.

Ég rölti út í bíl og kom mér af flugvellinum, heyrði svo í pabba og þá var hann búinn að tala við Hahn í Ultimate Racing Suspension og fá hann til að taka fjöðrunina í Husaberg-num í gegn og mátti ég mæta til hans um hádegið daginn eftir. Þannig næsta stopp var Doetinchem sem er bær í suð-austur horni Hollands um 150km í burtu. Ég stoppaði á McDonalds rétt við flugvöllinn og komst á netið, fann fínt tjaldsvæði í Doetinchem og tók stefnuna þangað, langaði að geta hent í þvottavél og svona ! Svo var bara brunað þessa 150km og áður en ég vissi af var ég kominn, renndi í búð og keypti í matinn áður en ég fann tjaldsvæðið. Þetta reyndist vera hrikalega fínt tjaldsvæði og ég fékk fínt stæði rétt við sturtu og þvottahúsið. Ég kom bílnum fyrir og fór svo og henti í þvottavél, síðan eldaði ég mér mat og græjaði, hengdi svo upp þvottinn og ætlaði svo að detta í rólegheit og fréttaskrif. Ætlaði rétt að hoppa upp í koju og sækja kodda og sæng til að sitja með en úff hvað það var gott að leggjast uppí. Það fór svo að ég steinsofnaði í öllum fötunum með allt kveikt og tölvuna í gangi haha ! Greinilega einhver uppsöfnuð þreyta sem var komin í mann...!

Dagur 21 - 02.10.12

Ég rumskaði nú einhverntíma um nóttina og fattaði þá að ég var í öllum fötunum, háttaði mig, slökkti ljósin og svaf svo fram til 10. Þá dreif ég mig á lappir og fór að ganga frá í bílnum, þvotturinn sem ég hafði hengt fyrir utan var ekki alveg orðinn þurr svo ég græjaði þvottasnúru í bílnum og hengdi upp. Hoppaði svo í sturtu og ætlaði svo að koma mér af stað, var bara að fara að skella mér hringinn upp í bílstjórasætið en þá tókst mér að læsa mig úti, alger snillingur ! Ég náði sem betur fer að finna einhvern vinnumann þarna á tjaldsvæðinu og ætlaði að fá hjá honum vír og skrúfjárn til að reyna að krækja í lykilinn sem lá bara og hló að mér í framsætinu. Hann vildi bara hringja í Benz "dealer-inn" í bænum til að redda þessu en ég vissi að það myndi kosta augun úr og náði loks að fá lánað hjá honum vír og skrjúfjárn til að reyna við þetta sjálfur. Það gekk auðvitað allt eins og í sögu og ég skilaði til hans verkfærunum áður en ég brunaði af tjaldsvæðinu inn í bæ.

Ég var kominn fyrir utan hjá Hahn í Ultimate Racing Suspension rétt uppúr hádeginu og þar var strax hafist handa, ég sleit hjólið út úr bílnum og Hahn og starfsmaður hans fóru á fullt að græja fjöðrunina í Bergnum. Ég nýtti tækifærið og smellti nýrri legu í neðri demparafestinguna að aftan sem var búin að vera ónýt síðan á öðrum degi í Six Days keppninni. Það var ótrúlega gaman að fylgjast með þeim félögum vinna í dempurunum og verkstæðið þarna er eins og tannlæknastofa, allt 100% og vinnubrögðin eftir því ! Klukkan var svo að nálgast 4 þegar hjólið var allt orðið klárt og ég rúllaði því út í bíl aftur, þakkaði Hahn fyrir og hélt svo mína leið.

Ég var svosum ekki búinn að ákveða neitt sérstaklega hvernig ég ætlaði að haga þessum dögum áður en ég færi aftur um borð í Norrænu en planið var að komast á net einhversstaðar og reyna að vinna eitthvað. Ég renndi inn á næsta McDonalds til að komast aðeins á netið og skipuleggja aðeins hvernig ég ætti að hafa þetta og ákvað svo á endanum að renna bara af stað upp til Danmerkur og var búinn að sjá fínt tjaldsvæði rétt við Hirtshals (þar sem Norræna kemur að landi) og ég gæti þá dundað þar áður en ég færi í skipið. Þannig GPS tækið var bara stillt á Hirtshals, rétt um 900km þangað og því ekkert annað að gera en að leggja í hann, fyllti bílinn af olíu, fékk mér snarl og svo bara rúlla eftir hraðbrautinni. Klukkan var svo að nálgast 11 þegar ég ákvað að kalla þetta gott, reyndi að finna net við nokkrar bensínstöðvar og McDonald's staði en í Þýskalandinu virtist alltaf vera eitthvað vesen að komast á netið, þarf alltaf að fá einhvern kóða sendann í símann sinn og það virkar ekki nema í þýsk númer ! Á endanum beygði ég bara inn á útskot rétt norðan við Hannover og fann mér stæði fyrir nóttina, kom mér fyrir uppí koju og sofnaði yfir Friends ;) !

Dagur 22 - 03.10.12

Klukkan hringdi 9 en ég drullaðist nú ekki framúr fyrr en uppúr 10, enda bara hraðbrautin sem beið mín ! Ég gekk frá í bílnum, fékk mér snarl og síðan rúllaði ég af stað eftir hraðbrautinni í átt til Danaveldis. Kílómetrateljarinn á GPS-inum tikkaði í rólegheitum niður á við og svosum ekki mikið annað að gera á hraðbrautinni en að fylgjast með því og hlusta á góða tónlist ! Klukkan var svo rétt um 6 þegar ég nálgaðist landamæri Danmerkur, pabbi var búinn að segja mér að þar væri svaka ódýrt að versla og ég skellti mér því inn í Scandinavian Park en þetta var nánast bara eins og fríhöfn þarna á landamærunum. Ég verslaði helling af nammi og svo skellti ég einum bjórkassa með fyrir pabba gamla, enda bjórinn þarna á hlægilegu verði. Áður en ég yfirgaf landamærin fékk ég mér að éta og svo brunaði ég aftur út á hraðbrautina og hélt áfram að rúlla.

Ég sá svo McDonald's stað rétt við hraðbrautina og ákvað að athuga hvort ég kæmist eitthvað á netið, jú auðvitað, ekkert vesen í Danaveldi svo ég eyddi smá tíma á planinu á netinu og dundaði eitthvað. Mér fannst svo eitthvað óþæginlegt að gista þarna á planinu svo að ég ákvað að rúlla út á hraðbrautina og skellti mér inn á fyrsta útskotið sem ég fann og kom mér fyrir.

Dagur 23 - 04.10.12

Einn hraðbrautardagur til viðbótar sem beið mín ! Ég smellti mér framúr um 10 og kom mér fljótlega af stað, það voru innan við 300 km eftir til Hirsthals. Það var sól og blíða úti og kílómetrarnir fuku hjá ! Ég var samt orðinn eitthvað þreyttur á þessu bruni eftir hraðbrautinni og fór að hugsa hvort það væri eitthvað sem ég gæti skoðað þarna á leiðinni, svo datt mér allt í einu í hug að Himmelbjerget væri þarna einhversstaðar. Ég fann mér net á næsta McDonalds og "googl-aði" mér aðeins til og þá uppgötvaði ég það að Himmelbjerget er ekkert hæsti "hóll" Danmerkur heldur var það eitthvað allt annað, ég sá einhverjar myndir af þessum stöðum og sýndist nú að þetta væri sennilega ekkert voðalega merkilegt að skoða svo ég saltaði þessa hugmynd og brunaði bara áfram í átt að Hirsthals. Einhverntíma í eftirmiðdaginn tók ég olíustopp og fékk mér smá snarl í leiðinni en svo loks um 5 leytið renndi ég inn til Hirtshals. Ég keyrði í gegnum bæinn og fann svo leiðina að tjaldstæðinu sem ég hafði fundið á netinu, það var einhverja 5 km fyrir utan bæinn. Tjaldstæðið leit svaka vel út svo ég keypti mér bara strax tvær nætur á því svo ég gæti komið mér vel fyrir þarna fram að brottför með Norrænu, fékk netaðgang, rafmagn og allann pakkann ! Fann mér svo fínt pláss og kom bílnum fyrir, það var greinilega ekki mikil traffík á svæðinu núna en samt mörg hjólhýsi þarna í heilsárs stæðum bara. Ég græjaði svo rafmagn í bílinn og kom mér vel fyrir, eldaði mér svo kvöldmat og dundaði svo í tölvunni fram eftir áður en ég skreið uppí koju.

Dagur 24 - 05.10.12

Ég vaknaði um 10 leytið á tjaldstæðinu og fékk mér morgunsnarl, skellti mér svo með uppvaskið út í svaka flott aðstöðuhús þarna á svæðinu. Þar voru klósett og sturtur, eldunaraðstaða, vaskar og sjónvarpsstofa. Ég ákvað svo að kíkja í smá hjólatúr niður á strönd sem var ekki nema 2 km frá tjaldsvæðinu. Það var frekar grátt yfir, frekar kalt og vantaði ekki mikið uppá að það væri rigning en slapp samt. Þetta var svaka flott strönd og greinilega mikil sumarhúsabyggð þarna á svæðinu. Ég skoðaði mig eitthvað um og kíkti í búð sem var þarna við ströndina áður en ég hjólaði til baka upp á tjaldsvæði.

Mig langaði að kíkja eitthvað út meira en veðrið var eitthvað svo óspennandi þannig ég endaði bara í bílnum aftur og fór að dunda í tölvunni, vinna og glápa á þætti til skiptis. Áður en ég vissi af var farið að rökkva og kominn tími til að græja kvöldmat, en fram eftir kvöldinu var svo bara dundað áfram í tölvunni, spjallaði við Örnu á netinu og glápti á þætti þar til ég skreið uppí ;) !

Dagur 25 - 06.10.12

Þá var dagurinn runninn upp, brottför með Norrænu ! Ég vaknaði um 9 og gekk frá öllu í bílnum, fékk mér að borða og yfirgaf svo tjaldsvæðið og hélt inn til Hirsthals. Fann leiðina að skipinu og var kominn í röðina þar um 12 sem var akkurat eftir bókinni, 3 tímum fyrir brottför ! Það leið nú einhver tími þar til þetta fór að rúlla, fór í "check-in" og beið svo í næstu röð í einhvern tíma áður en loks kom að því að keyra um borð.

Ég lagði bílnum og svo ferjaði ég draslið mitt upp í káetu númer 5109 ! Kíkti svo upp á dekk og fylgdist með þegar við sigldum frá landi, það var sól úti en alveg hávaða rok. Ég fékk mér svo pizzu í kaffiteríunni og kom mér fyrir í káetunni. Ákvað svo að skella mér í ræktina og tók svaka æfingu, gufu og ísbað á eftir og alles !

Svo slakaði ég bara á fram eftir kvöldi og glápti á tölvuna áður en svefninn náði mér. Ég var nú svo ekki búinn að sofa lengi þegar ég rumskaði við hrikalegan velting á skipinu en það var skall alveg helling til og það vottaði alveg fyrir sjóveiki frameftir nóttu sem var ekkert æðislegt en náði nú samt loks að sofna aftur !

Dagur 26 - 07.10.12

Ég reyndi nú að sofa bara eins og ég gat enda var veltingurinn um nóttina ekkert að gera góða hluti fyrir mig. Það var orðið mun betra í sjóinn og ég eyddi deginum bara í rólegheit í káetunni, fór aftur í ræktina einhverntíma seinnipartinn, kíkti í fríhöfnina um borð og svo bara gláp og rólegheit áfram enda ekkert nema bara sigling þennan daginn !

Dagur 27 - 08.10.12

Eldsnemma um morguninn kom skipið til Færeyja en ég svaf bara áfram fram til 9 og fór þá á lappir og skellti mér í land. Það var fínt veður en frekar kalt. Ég rölti um Þórshöfn og upp í SMS verslunarmiðstöðina þar sem það var allt að opna ennþá, fékk mér að éta og rölti eitthvað um áður en ég hélt svo aftur niður í skip en það áttu allir að vera komnir aftur um borð um 11. Fljótlega var svo lagt í hann aftur frá Þórshöfn og ég fór upp á dekk og fylgdist með þegar við sigldum á milli eyjanna í sól en hávaða roki ! Þetta eru alveg magnaðar eyjar, snarbrattir himinháir klettar fram í sjó og flott landslag. Við sigldum framhjá "Hestur" sem er eyja sem er bara eitt fjall eða klettur og rís snarbratt beint uppúr sjónum og svo var siglt í gegnum Vestmannasund, sem mér fannst frekar þröngt sund fyrir svona stórt skip.

Þegar við yfirgáfum svo Færeyjar byrjaði helvíti mikill veltingur og greinilega einhver órói í sjónum. Ég lagðist bara uppí rúm í káetunni og reyndi að sofa þetta af mér fram eftir degi, um kvöldið var svo orðið betra í sjóinn og ég ætlaði þá að skella mér fram og fá mér að éta en nei þá lokaði kaffiterían klukkan 9 og ég kom 10 mínútur yfir svo ég gat bara nælt mér í samloku sem var alls ekki góð og súkkulaði ! Ég glápti svo bara á tölvuna fram eftir kvöldi áður en ég lagði mig aftur ;) !

Dagur 28 - 09.10.12

Heimkomudagurinn ! Skipið átti að koma að landi um 9 svo ég vaknaði uppúr 7 og gekk frá öllu dótinu í káetunni, skipið var svo aðeins á undan áætlun svo að uppúr 8 gat ég borið draslið niður í bíl en við fengum samt ekki að fara í land fyrr en 9. Ég keyrði svo í land og þá tók við tollun en ég var að flytja keppnishjólið hans Hauks heim fyrir hann sem hann keypti úti.

Það var ekki búið að græja alla pappíra fyrir hjólið svo ég þurfti að bíða, heyrði í Kalla í KTM sem var að vinna í málunum inn á milli en svo var bara bið. Fékk að rölta út í sjoppu og fá mér að éta en þegar ég kom til baka voru allir tollarar farnir en bíllinn ennþá fastur hinum megin við hliðið, ég beið því bara áfram í upplýsingamiðstöðinni þarna við og loks kom tollarinn aftur og fór að vinna í þessum málum með mér. Það stóð svo eitthvað á tollinum fyrir sunnan að græja pappírana og þegar biðin var að nálgast 5 tímana ákvað tollarinn þarna bara að láta mig fara, sagði að þeir hlytu að senda þetta fljótlega að sunnan, algjör snillingur ! Hann kíkti ekki einu sinni í bílinn og veifaði mér beint í gegn. Ég rúllaði því bara beint yfir á Egilsstaði, tók olíu og pylsustopp áður en ég hélt áfram yfir öræfin. Maður var bara hálf sjóveikur að keyra fyrst um sinn á íslensku vegunum enda orðinn vanur hraðbrautunum úti þar sem bíllinn hreyfðist ekki ! Ég var svo kominn í Mývatnssveitina að verða 4 og sleit allt dót úr bílnum sem átti að verða eftir þar, skilaði hjólinu hans pabba í talsvert betra ástandi en það var þegar ég tók það ;) ! Pabbi kom svo heim og var hrikalega sáttur að sjá strákinn og græjuna sína ! Við spjölluðum eitthvað og fórum yfir málin áður en ég hélt svo áfram inn á Akureyri. Arna hafði farið í ræktina svo ég tók allt draslið mitt úr bílnum og bar það inn og gekk aðeins frá áður en hún kom heim og það var alveg pínu gott að vera kominn heim og geta faðmað stelpuna ;) !

Þannig fór nú það, enn eitt ævintýrið búið ! Takk kærlega fyrir að lesa og fylgjast með, ég vona að þið hafið haft gaman af þessum skrifum mínum og ekki gleyma að fylgjast með fréttum áfram hérna á síðunni ;) !

Jonni