SIX DAYS EUROTRIP 2012 - RACE DAY 4

Dagur 4 er yfirstaðinn og það var sama leið frá því í gær nema hvað það rigndi eldi og brennisteini í nótt og framundir morgun ! Áfram alveg geggjað að sjá hvað það eru margir sem fylgjast með okkur hérna á síðunni ;) ! Hér er "update" frá deginum !

Dagur 16 - 27.09.12 (Race Day 4)

Ég rumskaði við klukkuna um 7 leytið en var nú ekki kominn framúr þegar liðið var mætt undir fortjaldið hjá mér til að skýla sér frá ausandi rigningunni sem var nú eitthvað að minnka samt. Á tímabili um nóttina var rigningin svo mikil að ég vaknaði við drunurnar og skildi ekkert hvað væri í gangi ! En ég stökk framúr og græjaði hafragrautinn til að fylla á orkubirgðirnar fyrir daginn, svo hoppaði ég í gallann og strákarnir líka. Rigningin var svo eiginlega hætt þegar við röltum niður að "parc fermé", Kári fór fyrstur af stað og ég svo 15 mínútum seinna.

Ég gerði ekkert sérstakt í þjónustustoppinu nema græja tímaspjaldið á hjólið og fara smá yfir hjólið. Svo var rúllað út í start og klukkan 08:40 lagði ég af stað inní daginn, fyrstu sérleiðinni var sleppt vegna bleytu en þegar við keyrðum framhjá henni sá maður að hún var gjörsamlega á floti. Það var því bara brunað yfir á fyrsta þjónustustopp og helvíti var kalt á leiðinni, eins gott að vera í jakka, maður var pínu með varann á þar sem allt var rennandi blautt og sleipt, en þangað kom ég samt með næstum 20 mínútur í stopp fyrir fyrsta tímahliðið. Veðrið var að lagast mikið og sólin að brjótast fram þegar ég lagði af stað í næsta hluta leiðarinnar en hann var með margar erfiðustu brekkurnar og eina sérleið, mér gekk rosa illa í brekkunum, mikið af liði stopp sem ég festist á eftir og svo bara klaufaskapur.

Sérleiðin var svo alveg svakalega sleip og ég reyndi að keyra eins og ég gat en manni leið eins og algerum byrjanda í sleipri drullunni og grjótinu. Ég sá svo að ég var orðinn frekar tæpur á tíma og reyndi að keyra eins stíft og ég gat en það dugði ekki til, tók bensín í flýti í þjónustustoppinu og svo brunaði ég í tímahliðið og kom 4 mínútum of seint. Úff, var á algerum bömmer yfir þessu en reyndi að hrista það af mér og hugsaði mér að ég myndi bara gera betur í næsta hring. Næsta sérleið var svo svakalega krefjandi enduro í skógi í sleipum rótum, grjóti og drullu, mér gekk þokkalega en samt enginn ofsa hraði.

Ég náði svo að halda tíma yfir daginn en í seinni hringnum gekk mér mun betur í brekkunum og sumstaðar var búið að breyta leiðum og taka út hluta en mér sýndist margir vera að safna refsimínútum þarna fyrripart dags. Maður sá líka fullt af liði stopp útí braut að græja og laga hjólin sín, enda ekki skrítið miðað við aðstæðurnar og átökin. Seinnipart dagsins vorum við Haukur svo á svipuðum stað, hann var kominn með 3 mínútur í refsingu og var þá einni mínútu á undan mér, ég náði stundum að keyra hann uppi á ferjuleiðum og það var snilld að geta keyrt með honum. Í seinni hringnum voru líka leiðirnar búnar að þorna svakalega mikið frá því fyrr um daginn, svakalegur munur á sumum sérleiðunum.

Á leiðinni til baka var farið í gegnum sérleiðinna sem var sleppt um morguninn og ég náði bara helvíti góðu flæði í gegnum beygju brjálæðið þrátt fyrir mikla sleipu og rötta ! Ég og Haukur komum svo samferða upp í tímahlið fyrir þjónustustoppið, ég skipti um loftsíu, hefði ekki veitt af nýju afturdekki en var ekki með nýtt tilbúið og ákvað að láta hitt duga áfram. Svo það var bara brunað í endamarkið og ég rúllaði græjunni inn í "parc fermé" ;) ! Þegar ég kom upp í pitt var Kári þar og hafði honum gengið mjög vel yfir daginn, fyrir utan smá kröss á erfiðu sérleiðinni í skóginum, samt á tíma yfir daginn og á góðu róli. Restin kom svo koll af kolli og allir kláruðu daginn, nokkrar refsimínútur en aðal atriðið að allir kláruðu. Daði var 3 mínútum seinn og Gulli 11 mínútum en hann lenti í því að missa afturbremsuna næstum allan daginn sem getur ekki hafa verið þægilegt í öllu skógarógeðinu ! Dælan fór víst að leka en hann náði samt að redda því í þjónustustoppinu í lok dags og því klár í morgundaginn.

Við vorum allir hrikalega sáttir með þetta enda erfiðasti partur keppninnar búinn ! Menn komu sér úr gallanum og gengu frá, þau komu sér svo út á hótel og ég slappaði af inní bíl og kíkti á úrslit dagsins. Kári kominn í 119. sæti, ég 156, Haukur 157, Daði 166 og Gulli 170, Ísland komið í 17. sæti. Ég fór aðeins yfir tímana á sérleiðum dagsins hjá mér og það var greinilegt að erfiða sérleiðin var að trufla mig mest, þar var ég að tapa mestum tíma á ökumennina í kringum mig, ég var svona pínu svekktur með refsimínúturnar en maður verður bara að halda haus og reyna að gera betur það sem eftir er. Maður var svo eitthvað helvíti slakur svo ég lagðist aðeins uppí koju og lagði mig smá yfir Friends á tölvuskjánum, það var greinilegt að það vantaði orku á tankinn því ég rumskaði ekki við vekjaraklukkuna og vaknaði ekki fyrr en um 9. Ég hoppaði í sturtu og svo eldaði ég mér kvöldmat, eftir matinn dundaði ég smá í tölvunni áður en ég skreið undir sæng til að safna kröftum fyrir morgundaginn, á morgun er ný leið, 308km og hún á að vera öll svona medium, 8 sérleiðir sem eiga líka að vera medium. Það er því bara að kýla á þetta og taka á því á sérleiðum morgundagsins, reyna að keyra sig upp og auðvitað skila sér í mark !

Bara morgundagurinn og hinn eftir ;) !

Jonni