SIX DAYS EUROTRIP 2012 - RACE DAY 3

Þriðji keppnisdagurinn búinn og í dag fengum við að taka á því, um 350km leið, virkilega krefjandi á köflum og svo 8 sérleiðir ! Áfram geggjað að sjá heimsóknirnar og "comment-in" ! Hér kemur "update" frá deginum ;) !

Dagur 15 - 26.09.12 (Race Day 3)

Fór á lappir um 7 leytið og var rétt búinn að klæða mig þegar liðið var mætt fyrir utan, ég skellti í mig hafragrautnum og svo smellti ég mér í gallann með strákunum. Það var mjög fínt veður, bjart og mildur hiti ! Kári fór fyrstur af stað í "parc fermé" og svo fór ég næstur 12 mínútum seinna, í þjónustustoppinu var ekkert sérstakt að græja svo ég ákvað að fara bara yfir boltana á hjólinu, þegar ég ætlaði svo að tjékka á boltanum fyrir gírpedalann var ég varla búinn að taka á lyklinum þegar hann small í sundur, SHIT SHIT öskraði ég og mekkinn sem var að hjálpa mér öskraði það sama og hljóp og sótti borvél, ég boraði í kvikindið og var svo heppinn að brotið skrúfaðist bara á kaf inn í öxulinn og við náðum að setja nýjann bolta á eftir ! Fjúff, pínu stressandi, en eftirá að hyggja var kannski bara gott að ég sleit hann því hann var greinilega orðinn slappur og hefði ekki verið sérstakt að missa gírpedalann útí braut ! Ég kom akkurat á mínútunni út í start og smellti hjólinu í gang og svo var brunað af stað inní daginn, fyrsta ferjuleiðin var mikið á vegum fyrir utan fyrstu sérleiðina og það var orðið helvíti kalt bara í krosstreyjunni. Með mér á mínútu voru Dani og svo strákur í Junior flokki frá Argentínu, það var mjög fínt "tempo" á okkur og við fylgdumst yfirleitt að í gegnum daginn og vorum oft búnir að ná mönnum á næstu mínútu eða jafnvel þarnæstu á ferjuleiðunum.

En á þessum degi fengum við alveg að taka á því, það voru hrikalegar brekkur á ferjuleiðunum, bæði snarbratt upp og niður með grjóti, rótum og allskyns ógeði, "endurocross" þrautir og allur pakkinn ! Sérleiðirnar voru allt frá því að vera beygju sikk sakk á ökrum og uppí hrikalegt skógarógeð með fáránlega sleipum rótum og grjóti, alls 8 sérleiðir ! Ég var alltaf á tíma yfir daginn og hafði yfirleitt um 10 mínútur í stopp fyrir hvert tímahlið, einu mistökin sem ég lenti í voru tvö saklaus og aulaleg "slæd" á hliðina á ferjuleiðum og svo lenti ég í því á erfiðustu sérleiðinni að festast í leiðinlegri brekku sem var öll í ógeði, fáránlega sleip með rótum og grjóti, tapaði heilli 1 og hálfri mínútu á þeirri sérleið sem var helvíti dýrt ! Hitinn yfir daginn var búinn að hækka vel og það bunaði af manni við átökin yfir daginn ;) !

Stuðningsmennirnir okkar stóðu sig áfram hrikalega vel í dag, Robert og konan hans voru eins og áður um alla braut og alltaf sá maður íslenska fánann og þau hvetjandi mann á fullu, Tedda, Gunni og Ragna voru líka um allt og fylgdust vel með okkur strákunum. Ekkert smá gaman í þessu brekkurugli öllu að hafa svona mikið af áhorfendum sem er alveg trylltir að styðja mann á hliðarlínunni ! Allt hófst þetta að lokum og ég skilaði mér í endamark með góðan tíma til að undirbúa mig fyrir þjónustustoppið en í því skipti ég um framdekk, loftsíu og fór léttlega yfir hjólið, slagið í demparalegunni virðist bara vera það sama svo mekkinn hjá KTM sagði mér bara að halda áfram svona. Ég renndi þá bara í endamarkið og átti heilar 7 mínútur afgangs, trillaði svo hjólinu inn í "parc fermé" ! Þegar ég kom upp í pitt sat Kári þar pollslakur og svo týndust allir á svæðið, því miður hafði Ágúst dottið út þennan daginn, afturdekkið hjá honum var vírslitið og vildi ekki tolla á felgunni og allt í skralli, kallinn var helvíti súr skiljanlega, við hinir kláruðum allir á réttri mínútu og allt í góðu. Aftur var græjaður kjúlli á línuna og svo sátu allir og hámuðu í sig áður en við gengum frá dótinu okkar.

Þau komu sér svo öll út á hótel og ég tók því rólega í bílnum. Skellti mér í hrikalega langa sturtu þar sem ég skiptist á að hafa sjóðandi hita og svo ískallt til að reyna að fyrirbyggja strengi en maður var alveg farinn að finna fyrir höndunum á sér í dag. Svo gúffaði ég í mig pasta máltíð og dundaði svo í tölvunni. Næst á dagskrá er það kojann til að safna kröftum fyrir morgundaginn en hann er alveg eins og í dag, sama leið og það gæti rignt eitthvað í nótt og fyrramálið sem gæti gert þetta enn skrautlegra ;) ! Staðan eftir daginn er þannig að Kári er kominn uppí 124. sæti, ég 162, Haukur 170, Daði 179, Gulli 182 og Gústi dottinn út, Ísland komið uppí 18. sæti, Svisslendingar eru næstir á undan okkur með gott forskot en svo eru næstu lið á eftir okkur ekki svo langt frá svo það þýðir ekkert að slaka á, þó auðvitað sé það eina sem skiptir máli að halda haus og komast heilir í gegnum daginn !

Bara hinn og hinn og hinn eftir ;) !

Jonni