SIX DAYS EUROTRIP 2012 - RACE DAY 1

Þá er fyrsti keppnisdagurinn búinn og hér kemur "update" frá deginum ! Takk fyrir allar heimsóknirnar, vonandi að þið haldið áfram að fylgjast svona vel með okkur strákunum og endilega skilja eftir "comment" handa okkur ;) !

Dagur 13 - 24.09.12 (Race Day 1)

Það var ræs rétt fyrir 7 hjá mér en ég var rétt að skríða framúr kojunni þegar ég sá að restin af íslenska liðinu var að mætt fyrir utan hjá mér og allir að byrja að græja sig. Ég sleit í mig eins miklum og góðum morgunmat og ég gat áður en ég skellti mér í gallann, Ágúst fór fyrstur af stað af okkur Íslendingunum og svo næstir fóru Gulli og Haukur saman.

Við Daði og Kári vorum svo allir saman á mínútu og sóttum hjólin okkar í "parc fermé" klukkan 08.11, fengum svo 10 mínútur í þjónustu í KTM pittinum við rásmarkið þar sem við gerðum nú ekkert nema bara koma tímaspjaldinu okkar á hjólið og samstilla klukkuna okkar við keppnisklukkuna. Svo trilluðum við út í rásmarkið og klukkan 8.26 vorum við ræstir af stað og vorum kynntir sem "The Icelandic young boys" þegar við renndum af stað í fyrsta keppnisdaginn. Eftir stutta ferjuleið var komið að fyrstu sérleið sem var mega sikk sakk á plægðum akri. Maður var nú ekki alveg búinn að keyra sig í gang þegar maður lagði af stað en undir lokin var maður að verða kominn í gírinn, moldin var rosa spes, virkaði mjög sleip þegar maður kom inní beygjur en svo þegar maður botnaði útúr þeim þá allt í einu fékk maður þvílíkt grip. Við fórum þrír í röð inn á sérleiðina, Kári fyrst, svo ég og svo Daði. Þegar við komum útaf sérleiðinni hópuðumst við saman aftur og keyrðum næstu ferjuleið saman að næsta þjónustustoppi og tímahliði þar sem við þurftum að vera á réttri mínútu samkvæmt tímaplaninu okkar.

Við komum í þjónustustoppið með góðar 10 mínútur fyrir tímahliðið og gerðum ekkert sérstakt nema fá okkur að drekka og borða. KTM þjónustan var alveg að gera sig, allt mjög vel upp sett og allt klárt, mekki klár þegar maður kom inn með stand undir hjólið og strax fyllt bensín á hjólið og athugað hvort það væri eitthvað sem þyrfti að gera. Svo gekk dagurinn áfram og við vorum alltaf með góðan tíma fyrir tímahlið og á góðu róli, við reyndum að fylgjast 3 að á ferjuleiðunum og okkur gekk vel í gegnum þær og sérleiðirnar líka. Mesta hindrun dagsins var svakaleg brekka á einni ferjuleiðinni, var sennilega um 500m snarbrött og öll í grjóti og rótum. Mér gekk vel upp hana í fyrri hringnum en í þeim seinni missti ég ferðina í einhverju brölti og missti hjólið út á hlið, það gekk samt vel að komast aftur af stað aftur og klára kvikindið. Við fórum semsagt 2 hringi á leið dagsins og í gegnum 6 sérleiðir og vorum við allir 3 að keyra mjög öruggt og flott, gekk líka vel á ferjuleiðunum. Fréttum svo að það gengi allt vel hjá hinum Íslendingunum líka, það var svo alger snilld að sjá allt í einu íslenska fánann í einni brautinni og brjálað lið á kanntinum að hvetja en þá var það hinn pólsk/íslenski Robert Knasiak sem var mættur með konunni að hvetja okkur strákana. Það var líka ótrúlegt hvað það var mikið af fólki um alla braut að horfa á og hvetja, t.d. þegar maður kom inn í einn bæinn voru gangstéttarnar troðfullar af krökkum og greinilegt að heilum skóla hafði verið hleypt út að fylgjast með, allir vinkuðu og hrópuðu þegar maður keyrði framhjá, í brekkunni var líka allt troðið af liði að hvetja og benda manni á bestu leiðirnar og svo oft mætti manni heil hersing einhversstaðar lengst útí skógi sem veifaði og hvatti mann áfram, hrikalega gaman.

Við "the young boys" kláruðum svo daginn allir á tíma og gerðum ekkert í þjónustustoppinu í lok dags nema skipta um loftsíu og fara yfir bolta á hjólinu. Svo skiluðum við hjólunum inn en við "parc fermé" stóð löggan og pikkaði Kára út en þá hafði hann verið myndaður og fékk sekt uppá heilar 25 evrur, gat nú ekki sloppið betur en við erum nokkuð vissir að löggan hafi náð honum þegar hann kom í prjóni upp brekku á malbikuðum vegi, sá lögguna og negldi niður, við glottum til hvorns annars og Kári sagðist hafa séð lögguna ætla að spenna á sig beltið en þegar Kári negldi niður hafi hann sleppt því hehe ! Það er allt annað hér miðað við Finnland í fyrra þegar löggan gerði ekkert nema reyna að veiða keppendur á ferjuleiðunum, hér eru löggur um alla braut að stöðva umferð þar sem við þurfum að fara yfir vegi og bara vinna með keppninni.

Við komum svo upp í pitt og þar hittum við loksins alla og allir voru heilir og góðir eftir daginn, eini sem var með refsimínútur var Gústi en hann hafði klúðrað sér eitthvað í brekkunni og nældi sér í 5 mínútur. Það er ekkert til að hafa áhyggjur af á meðan allir skila sér í mark ;) ! Menn klæddu sig svo úr göllunum og gengu frá, við kíktum svo á úrslit dagsins í landsliðakeppninni, Kári endaði númer 138, ég 168, Daði 180, Haukur 183, Gulli 191 og Gústi 206, Ísland í 20. sæti og eigum ekki langt að sækja á næstu tvö lið ! Síðan héldum við öll út á hótel í kvöldmat, ég stökk inn í súpermarkað á leiðinni að sækja smotterí sem vantaði á birgðirnar í bílnum. Það var svo að sjálfsögðu svera steikin í matinn til að byggja upp forðann fyrir morgundaginn, fengum okkur meira að segja pasta í forrétt líka. Ég fékk svo far til baka með Teddu en hún þurfti að mæta á liðsstjórafund kl 8. Þegar ég kom heim á Hótel Sprinter græjaði ég svona hitt og þetta til að allt væri klárt fyrir morgundaginn, skellti mér svo í sturtu og dundaði svo í tölvunni og er núna lagstur uppí koju ;) !

Einn dagur af sex búinn, svo það er nóg eftir ;) ÁFRAM ÍSLAND !!!

Jonni